Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 17:33:44 (3684)

2003-02-10 17:33:44# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., SI (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[17:33]

Sigríður Ingvarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Já, það er atvinnuleysi hjá íslenskum sjómönnum um þessar mundir. Þess vegna finnst mér tilvalið að auka möguleika þeirra á vinnu.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson vék að nál. meiri hlutans. Ég vildi fá að botna, með leyfi forseta, það sem hv. þm. byrjaði þar á. Hann var að ræða um að þurrleiguskráning fiskiskipa væri ekki í andstöðu við íslenska hagsmuni. Hér segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Við þessu er séð í frumvarpinu, sbr. a- og f-lið 2. efnismgr. 1. gr. Í f-lið, sem tekinn var upp í frumvarpið í samræmi við breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar á síðasta þingi, segir að sjávarútvegsráðuneytið skuli staðfesta, áður en heimild til þurrleiguskráningar sé veitt, að þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur veiti ekki því ríki þar sem þurrleiguskráning fer fram veiðireynslu sem gæti nýst því síðar í samningum við íslenska ríkið um skiptingu aflaheimilda eða gangi að öðru leyti gegn hagsmunum Íslendinga. Fáist slík staðfesting ekki er Siglingastofnun ekki leyfilegt að veita heimild til þurrleiguskráningar.``