Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 17:35:14 (3685)

2003-02-10 17:35:14# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[17:35]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Okkur greinir ekki á um að þetta stendur svona í frv. Ég var að draga fram að þó að hv. þm. hafi bent á veiðar eins og í Smugunni, sem e.t.v. hefðu staðið okkur til boða, er alls ekki víst að þær falli undir þessa skilgreiningu, þær gætu hafa unnið gegn framtíðarhagsmunum okkar. Þess vegna hef ég sagt, herra forseti, að ef fylgja á efnismálsgreinum þessa frv. algjörlega og tryggja að við séum ekki að búa til veiðireynslu fyrir önnur ríki, sem við gerum alltaf undir fána þeirra, er frv. eins og það er sett fram ekki að færa okkur nokkur ný tækifæri í næsta nágrenni okkar, herra forseti.

Varðandi sjómennina og störf þeirra segir í greinargerð með þessu frv., herra forseti, að íslenskir útgerðarmenn hafi sérstaklega sóst eftir því að þetta frv. færi í gegn. Það er það sem stjórnarflokkarnir ætla að sjá til. Útgerðarmenn telja sig þurfa að ná niður launakostnaði og telja of dýrt að vera með íslenska sjómenn. Ég harma það ef menn eru almennt á þeirri skoðun að eftirsóknarvert sé að tryggja íslenskum sjómönnum lakari kjör en þeir búa við í dag.