Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 17:37:28 (3687)

2003-02-10 17:37:28# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[17:37]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sigríður Ingvarsdóttir gerir mikið úr möguleikum okkar til að sækja á fjarlæg fiskimið. Ég tek undir það. Ég tek undir það að við eigum að nýta möguleika til að sækja á önnur og fjarlæg fiskimið. En það gerum við fyrst og fremst með samningum við viðkomandi lönd um veiðiheimildir og á alþjóðlegum hafsvæðum á grundvelli alþjóðasamninga. Við náum ekki árangri með þeim hætti að fara undir fána ríkisins einungis til að koma áhöfninni á lélegri kjör.

Finnst hv. þm. eitthvert réttlæti í að skip útgerðarinnar skuli njóta allra íslenskra réttinda, veða og vátrygginga samkvæmt íslenskum lögum en áhöfnin ein verði að fara undir lög, kjör og öryggisreglur fánaríkisins, sem geta verið allt önnur en þau sem hér eru? Finnst hv. þm. eitthvert réttlæti í svona meðferð?

Ég legg áherslu á að það hefur verið stefna okkar að sækja fiskveiðiheimildir á grundvelli samninga, virða samningsrétt og fiskveiðilögsögur annarra ríkja. Við sækjum þangað inn á grundvelli gagnkvæmra samninga en ekki með svona sjóræningahætti, að hafa skipið undir tveimur fánum. Finnst hv. þm. réttlæti í að það gildi önnur lög um skipið en um sjómennina?