Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 17:40:15 (3689)

2003-02-10 17:40:15# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[17:40]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Við getum sett í lög að skipið sjálft lúti íslenskum lögum, rétti og hlunnindum. Þá ættum við alveg eins að geta sett í lög að viðkomandi skipi, viðkomandi skipseiganda, væri skylt að ráða sjómenn samkvæmt íslenskum kjarasamningum, þó að þeir færu síðan og flögguðu undir öðrum fánum.

Á sama hátt er hægt að setja í lög að á íslenskum skipum skuli gilda íslenskir kjarasamningar. Það heftir ekkert möguleika þessara skipa til að sækja á önnur fiskimið. Hvers vegna á að mismuna svona? Einungis skipseigandinn fær að njóta góðrar tryggingalöggjafar á Íslandi gagnvart skipinu sínu en ekki áhöfnin.

Ég vil líka spyrja hv. þm. hvort það veki henni ekki nokkurn ugg, frétt sem birtist hér 4. des. í blaðinu Skerplu, um löndunarbann sem sett er á rússneska tvíflöggunartogara í Vestur-Evrópu frá og með áramótum. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Norsku sjómannasamtökin ætla að koma í veg fyrir að afla verði landað úr rússneskum togurum, sem gerðir eru út samkvæmt svokölluðum þurrleigusamningum, í norskum höfnum frá og með næstu áramótum. Önnur verkalýðs- og sjómannafélög í Vestur-Evrópu hafa lofað að gera slíkt hið sama.``

Finnst hv. þm. lofsvert fyrir okkur að slást í hóp með öðrum hálfgerðum sjóræningjaskipum sem verkalýðsfélög og samtök í öðrum löndum banna að landa í löndum sínum? Finnst hv. þm. góð leið að slást í fylgd með hálfgerðum sjóræningjaflotum sem aðrir eru að reyna að hindra að komi inn í lögsögu þeirra?