Lögfræðiaðstoð við efnalítið fólk

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 17:44:01 (3691)

2003-02-10 17:44:01# 128. lþ. 75.30 fundur 143. mál: #A lögfræðiaðstoð við efnalítið fólk# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[17:44]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Megintilgangur tillögunnar sem ég flyt hér, um lögfræðiaðstoð við efnalítið fólk, er að tryggja að réttur þeirra sem þörf hafa fyrir lögfræðiaðstoð verði ekki fyrir borð borinn sökum fátæktar eða vanefna.

Tillaga þessi hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að koma á opinberri lögfræðiaðstoð með það að markmiði að tryggja að efnalítið fólk geti leitað réttar síns. Aðstoðin taki til lausnar á lögfræðilegum álitaefnum og til mála sem lögð eru fyrir dómstóla og falla ekki undir ákvæði um endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð vegna gjafsóknar.

Dómsmálaráðherra leggi fram frumvarp þar að lútandi eigi síðar en á haustþingi 2003.``

Herra forseti. Áður hefur verið reynt að freista þess að fá slík frumvörp lögfest hér. Þrívegis hafa verið lögð fram stjórnarfrv. um opinbera lögfræðiaðstoð sem greidd yrði úr ríkissjóði að hluta eða að fullu til að tryggja að réttindi einstaklinga glatist ekki sökum lítilla efna. Síðast var slíkt frv. lagt fram á 118. löggjafarþingi en áður á 112. og 113. löggjafarþingi.

Einnig má nefna að árið 1974 var lögð fram tillaga á Alþingi, frá þingmönnum um sama efni, sem ekki náði fram að ganga. Af umræðum um fyrrgreind stjórnarfrv. á sínum tíma er ljóst að mikill vilji var fyrir framgangi málsins og má í því sambandi nefna að á 113. löggjafarþingi var málið afgreitt samhljóða úr allshn. Það náði þó ekki fram að ganga.

Þó ekki hafi verið sett lög um lögfræðiaðstoð fyrir efnalítið fólk þá hefur lögfræðiaðstoð Orators og Lögmannafélags Íslands gegnt veigamiklu hlutverki við að aðstoða fólk í lögfræðilegum málefnum og við að leita réttar síns. Einnig ber að geta þess að ýmis önnur félagasamtök hafa veitt lögfræðilega leiðbeiningaþjónustu fyrir félagsmenn sína. Slík aðstoð kemur þó aldrei í stað þeirrar lögfræðiaðstoðar sem efnalítið fólk hefur áratugum saman átt rétt á í nágrannaríkjum okkar, enda felst þjónusta þessara félaga fyrst og fremst í ráðgjöf um réttarstöðu þeirra sem þangað leita og hugsanlega leiðbeiningar um framvindu máls þeirra. Ef frekari aðstoðar er þörf verður viðkomandi að leita annað og greiða fyrir þá þjónustu.

Eins og ég nefndi er víðast hvar í þeim löndum sem við berum okkur saman við boðið upp á slíka lögfræðiaðstoð fyrir efnalítið fólk sem greitt er fyrir að hluta eða öllu leyti.

Ég tel, herra forseti, fulla ástæðu til að láta á nýjan leik reyna á framgang þessara mála sem nokkrum sinnum hafa komið fyrir þingið. Samfélagið er sífellt að verða flóknara og tæknivæddara og miklar breytingar hafa orðið á réttindum og skyldum fólks, m.a. með aukinni alþjóðavæðingu. Oft er því ekki á færi hins almenna borgara að fylgjast með réttindum sínum eða leita réttar síns nema með lögfræðilegri aðstoð. Einnig verður sífellt dýrara að leita sér slíkrar aðstoðar í lögfræðilegum málum og að reka mál fyrir dómstólum.

Mál þetta snýst því að verulegu leyti um að allir séu jafnir fyrir lögum og hafi sömu möguleika á að leita réttar síns í þjóðfélaginu. Að öðrum kosti er hætta á að efnalítið fólk glati réttindum sínum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég vonast til að það eigi greiða leið í gegnum þingið og legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til síðari umr. og hv. allshn.