Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 18:22:02 (3696)

2003-02-10 18:22:02# 128. lþ. 75.31 fundur 149. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[18:22]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé kannski ekki af miklu að státa þegar verið er að tala um það hvað lágmarkslaunin hafi hækkað hér mikið. Vissulega voru þau lág og þau hafa hækkað en ég býst við að það sé leitun að því landi, sem við a.m.k. berum okkur saman við, þar sem launin eru lægri, þar sem matvælaverðið er hærra og þar sem vextir eru hærri. Þegar hv. þm. talar um kaupmátt lífeyrisgreiðslna finnst mér hann brenna sig á nákvæmlega því sama og sjálfstæðismenn brenna sig alltaf á þegar þeir eru að tala um kaupmáttinn, þeir tala einungis um þann litla hóp lífeyrisþega sem er með fullar bætur úr tryggingunum, þ.e. þennan sem fær tekjutryggingarauka og ég nefndi áðan, en það voru 1,3% aldraðra sem fengu á árinu 2001 tekjutryggingarauka, þ.e. 330 aldraðir, og 9,3% öryrkja, þ.e. 908 manns. Það var sá hópur sem var mest gert fyrir hér í nóvembermánuði, og það er ekki hægt og ekki sanngjarnt að miða kaupmáttinn bara út frá þeim hópi. Það á að miða, þegar við erum að tala um kaupmáttinn, við þann stóra hóp aldraðra og öryrkja, t.d. þann sem hefur fulla tekjutryggingu. Hann hefur eitthvað úr lífeyrissjóði, það er rétt, en tekjurnar eru þar alls ekki miklar.

Samkvæmt þeim tölum sem ég hef hér, það getur vel verið að þær hafi breyst eitthvað lítillega, fá 43% allra öryrkja engar greiðslur úr lífeyrissjóði og það eru 40% lífeyrisþega sem hafa óskerta tekjutryggingu. Það vill svo til að þó að þessar bætur hafi hækkað í nóvember fyrir tilstuðlan Samtaka aldraðra var hluti þeirra tekinn aftur eins og þeir gera svo gjarnan, sjálfstæðismenn, með hækkun á lækniskostnaði nú í janúarmánuði.

Og þegar hv. þm. talar um kaupmátt þessa fólks ætti hann líka að hafa til viðmiðunar hvað búið er að fara illa með það vegna húsnæðismála. Stærsti hluti þessa fólks þarf að vera á leigumarkaðnum þar sem hefur orðið hrikaleg hækkun á leigukostnaði sem hefur komið sér afar illa fyrir stóran hluta þess hóps sem við hér ræðum.