Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 18:28:10 (3699)

2003-02-10 18:28:10# 128. lþ. 75.31 fundur 149. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[18:28]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að heyra hjá hv. þingmanni að húsaleigubæturnar hafi verið veruleg kjarabót fyrir þann hóp sem við hér erum að ræða. Það er mjög ánægjulegt að það skuli koma fram í umræðunni því að það eru um 10% af lífeyrinum, eða getur verið það.

Varðandi það að lífeyrisþegar borgi núna tekjuskatt er það þannig að frítekjumarkið hefur hækkað nokkurn veginn eins og verðlag, og lífeyrir frá lífeyrissjóðunum hefur líka hækkað eins og verðlag (Gripið fram.) en launin hafa hækkað miklu meira og þess vegna lendir fólkið sem áður var undir skattleysismörkum í því að borga skatt --- vegna þess hvað launin hafa hækkað mikið. Og lífeyririnn, sem hefur hækkað enn þá meira, töluvert umfram laun --- eins og þessi frétt frá Samtökum atvinnulífsins segir hefur lágmarkstekjutryggingin hækkað umtalsvert umfram laun --- gerir það að verkum að þeir eru farnir að borga tekjuskatt eins og aðrir sem hafa hækkað mikið í launum.

Hv. þm. sagði að þetta hefði ekki hækkað eins og launavísitalan. Það er ekki rétt, þessar bætur hafa hækkað umfram launavísitöluna, a.m.k. eftir að Alþýðuflokkurinn sleppti tökum á þessum málaflokki.