Meðlagsgreiðslur

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 18:29:48 (3700)

2003-02-10 18:29:48# 128. lþ. 75.32 fundur 150. mál: #A meðlagsgreiðslur# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[18:29]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um framkvæmd meðlagsgreiðslna umfram lögboðið lágmarksmeðlag og skattalega meðferð þeirra, sem ég flyt ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar.

Markmið þessa frv. er tvíþætt. Það er að afnema skattlagningu á öllum meðlagsgreiðslum, hvort sem um er að ræða einfalt, tvöfalt eða jafnvel margfalt meðlag, og fela Innheimtustofnun sveitarfélaga að innheimta meðlagsgreiðslur umfram lágmarksmeðlag líkt og nú er gert varðandi lágmarksmeðlag, sem og innheimtu á menntunarframlögum og sérstökum framlögum sem foreldri fær úrskurð um.

[18:30]

Samkvæmt 25. gr. barnalaga er Tryggingastofnun ríkisins skylt að greiða foreldri barns sem á framfærslurétt hér á landi og öðrum sem eru nefndir í 27. gr. laganna framfærslueyri (meðlag) með barni samkvæmt lögmætum úrskurði eða staðfestum samningi, þó innan þeirra marka um fjárhæð og aldur barns sem greinir í almannatryggingalögum.

Í barnalögunum er gengið út frá því að óheimilt sé að ákveða lægri meðlagsgreiðslu en barnalífeyri eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma í almannatryggingalögum. Hvergi er að finna ákvæði sem kveður á um hámark meðlagsgreiðslna.

Samkvæmt lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga er það hlutverk stofnunarinnar að innheimta hjá meðlagsskyldum foreldrum meðlag sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt forráðamönnum barna þeirra samkvæmt almannatryggingalögum. Heimild er fyrir því að stofnunin taki að sér innheimtu á aukameðlögum. Þessa heimild hefur stofnunin aldrei nýtt, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið eftir því leitað. Sé samið um hærra meðlag en lágmarksmeðlag eða sýslumaður úrskurðar slíkt þarf foreldrið sjálft að innheimta það sem er umfram lágmarksmeðlag eftir öðrum leiðum. Í frumvarpinu er þessi innheimta gerð að skyldu Innheimtustofnunar ásamt því að felld er brott heimild stofnunarinnar til að taka greiðslu fyrir innheimtuna.

Algengast er að meðlagsgreiðendur, sem í flestum tilvikum eru feður, séu aðeins krafðir um lágmarksmeðlag, þótt heimild sé fyrir aukameðlagi miðað við að mánaðartekjur greiðenda fari yfir 200 þús. kr. Að vísu hefur færst í vöxt að í samningum um skilnaðarkjör og forsjá barna sé kveðið á um greiðslu hærra meðlags en sem nemur fjárhæð barnalífeyris. Þannig hefur þeim samningum fjölgað nokkuð sem kveða á um greiðslu tvöfalds meðlags. Dómsmálaráðuneytið gefur út viðmiðunarreglur til leiðbeiningar við ákvarðanatöku í málum vegna krafna um hærra meðlag með börnum. Ástæða þess að meðlög umfram lágmarksmeðlag eru þó ekki algengari en raun ber vitni er einkum sú að viðtakendur aukameðlaganna, oftast mæður, verða að sjá um innheimtu þeirra.

Komið hefur fram að sérfræðingar telja þessa tilhögun eina helstu ástæðu þess að margir einstæðir foreldrar sem fara með forræði barna treysti sér ekki til þess að krefjast aukameðlags þótt meðlagsgreiðandi hafi háar tekjur. Meðlag með einu barni er um 15 þús. kr. á mánuði og það segir sig sjálft að það er ekki stór hluti af framfærslukostnaði hvers barns. Þess vegna er mikilvægt að breyta tilhögun um innheimtu meðlags eins og hér er gert ráð fyrir og skylda Innheimtustofnun til þess að innheimta það sem er umfram lágmarksmeðlag einnig.

Annað meginefnisatriði frumvarpsins er að leggja til breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og þar er gert ráð fyrir að meðlögin verði alfarið skattfrjáls. Í hugum flestra er meðlag foreldris með barni ekki tekjur móttakanda heldur fremur ráðstöfun tekna meðlagsgreiðanda í þágu barnsins. Má í því sambandi benda á að í 19. gr. barnalaga kemur fram að þessi framfærslueyrir tilheyri barni. Illskiljanlegt er því að takmarka undanþágu frá tekjuskatti við tvöfalt meðlag, en gera meðlagsgreiðslur umfram það skattskyldar. Reyndar má segja að í slíkum tilvikum sé um tvísköttun að ræða, þ.e. fyrst er greiddur skattur af tekjum meðlagsgreiðanda og síðan af meðlaginu þegar það er komið í hendur þess sem hefur forræði yfir barninu.

Breytingin sem hér er lögð til á lögum um tekjuskatt og eignarskatt felur í sér að barnsmeðlag á grundvelli meðlagsúrskurðar sýslumanns eða samkomulags um framfærslu barns sem staðfest hefur verið af sýslumanni teljist ekki til tekna og verði skattfrjálst.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar en vil þó nefna að efni frv. sem hér um ræðir og ég mæli fyrir er nokkuð breytt frá því að það var fyrst lagt fram sem 547. mál á 125. löggjafarþingi. Þá var lagt til í frv. að meðlög umfram lágmarksmeðlög yrðu skattfrjáls. Efh.- og viðskn. tók þann hluta þess frv. inn sem brtt. við stjfrv. um tekjuskatt og eignarskatt þannig að hluti af því sem ég lagði til þá var tekinn upp og eru lögin nú með þeim hætti að tvöfalt meðlag er skattfrjálst, en ég tel að ganga þurfi lengra eins og ég hef hér lagt til þannig að allar meðlagsgreiðslur verði skattfrjálsar.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.