Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 18:55:37 (3703)

2003-02-10 18:55:37# 128. lþ. 75.42 fundur 298. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[18:55]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. sem áður hefur komið fram á Alþingi, eins og fram kemur í grg. Það mun hafa verið lagt fram á síðasta þingi og einnig næstsíðasta löggjafarþingi og kveður á um að fólk verði ekki skyldað til að greiða til stéttarfélaga iðgjald sem hugsað er til að standa straum af gerð kjarasamninga. Eins og fram kom í máli hv. þm., flutningsmanns frv. Péturs H. Blöndals, tínir hann til fjölmarga aðra samninga og vísar í fyrirkomulag sem hann telur ekki standast stjórnarskrá og ganga freklega á einstaklingsrétt.

Ég verð að segja að mér finnst þetta frv. verðskulda mikla umræðu. Ég er mjög ósammála því. Þessi hugsun var kjarninn í stefnu Margrétar Thatcher á sínum tíma í Bretlandi, Ronalds Reagans og annarra gunnfánabera frjálshyggjunnar sem fram komu undir lok áttunda áratugarins og á fyrri hluta hins níunda. Hér er gerð aðför að félagslegri aðkomu launafólks að kjarasamningum. Flytjandi frv. þessa, hv. þm. Pétur H. Blöndal, er að segja okkur að í rauninni eigi enginn að þurfa að greiða í sjóði sem viðkomandi hefur ekki beinan ávinning af, hann á ekki að þurfa að greiða fyrir annan mann, eins og kemur fram hér með tilvísan í iðgjald til lífeyrissjóðs.

Hér segir, með leyfi forseta:

,,Iðgjald til lífeyrissjóðs, sbr. lög nr. 129/1997, er sömuleiðis ekki hreint þjónustugjald þar sem einhleypum barnlausum karlmanni er gert að greiða of hátt iðgjald sem að hluta til stendur undir barna- og makalífeyri annarra einstaklinga og dýrari ellilífeyri kvenna. Hér er því að hluta til um skattlagningu að ræða sem ekki hlítir ákvæðum stjórnarskrár því viðtakandi er ekki opinber aðili, ákvörðun greiðslunnar er ekki samkvæmt lögum og álagningin er ekki samkvæmt lögum. Iðgjald til lífeyrissjóðs fer ekki í gegnum fjárlög.``

Þarna koma reyndar til álita ýmsir aðrir þættir en þetta skilst mér að sé hugsunin, að þú eigir einvörðungu að greiða gjald til réttinda sem stofnað er til fyrir þig einan sem einstakling. Þegar kemur að stéttarfélögunum lítur hv. þm. í fyrsta lagi á það sem mannréttindamál að hverjum og einum sé í sjálfsvald sett hvort hann greiðir slíkt gjald. Hin hugsunin er að þú ert að greiða fyrir verk sem unnin eru fyrir aðra og það er að sönnu hlutverk stéttarfélaganna, að sinna málum sem upp koma fyrir hugsanlega mikinn minni hluta manna.

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar en ráð var fyrir því gert að þessum fundi lyki nú kl. sjö. Forseti væntir þess að hv. þm. eigi enn þá talsverðu ólokið af ræðu sinni.)

Já.

(Forseti (GÁS): Þá vill forseti fara þess á leit við hv. þm. að hann geri hlé á henni og haldi henni áfram síðar.)

Það er sjálfsagt.