Tækni- og iðnmenntun

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 13:39:11 (3707)

2003-02-11 13:39:11# 128. lþ. 76.94 fundur 421#B tækni- og iðnmenntun# (umræður utan dagskrár), Flm. BjörgvS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[13:39]

Björgvin G. Sigurðsson:

Herra forseti. Íslensk verkmenntun er í kreppu í kjölfar fjársveltis og metnaðarleysis menntayfirvalda undanfarinn áratug. Iðn- og tæknimenntun á í djúpstæðum vanda sem lýsir sér m.a. í því að aðsókn að náminu hefur minnkað, verknámið hefur að hluta færst af landsbyggðinni og framboð á verkmenntun minnkað í fjölbrautaskólum landsins. Auk þess er námsefnið staðnað og úrelt í mörgum greinum. Afleiðingarnar eru lítil nýliðun í iðngreinum og atgervisvandi íslensks iðnaðar.

Undirstaða nýsköpunar í atvinnulífinu er gott list- og verknám sem svarar kröfum tímans og er eftirsótt af ungu fólki. Öflug og framsækin menntun sem uppfyllir þarfir atvinnulífsins á hverjum tíma er forsenda þess að viðgangur og vöxtur iðnaðar, þekkingarsamfélags og hátækni verði svo sem vonir og væntingar standa til. Í kjölfar fjársveltis hafa hinar hefðbundnu iðngreinar verið að gefa eftir og má nefna sem dæmi að sveinsprófum hefur fækkað um 14% á liðnum árum. Það má því fullyrða að bágborið ástand iðn- og tæknináms og minnkandi ásókn í það sé farið að grafa undan uppbyggingu og útrás atvinnulífsins og standa samkeppnishæfi þess fyrir þrifum. Að hluta liggur þessi fjárhagsvandi verknámsins í reiknilíkandi sem notað er til dreifingar á fjármagni til framhaldsskólanna. Líkanið skilar verknámi ekki því sem eðlilegt er til að hægt sé að halda því úti með sómasamlegum hætti og alls ekki því fjármagni sem nauðsynlegt er til að halda úti metnaðarfullri iðn- og tæknimenntun sem stenst kröfur námsmanna og atvinnulífsins.

Samtök iðnaðarins hafa gagnrýnt reiknilíkanið harkalega og segja það algjörlega ónothæft mælitæki á fjárþörf íslenskra framhaldsskóla, sérstaklega iðnskóla og verkmenntaskóla eins og fram kemur í yfirlýsingu frá samtökunum í nóvember sl. Innan fjölbrautaskólanna hefur átt sér stað dapurleg þróun. Þeir lögðu upp með háleit markmið um metnaðarfullt verknám og fjölbreyttar verknámsgreinar en hafa horfið frá þeirri braut og snúið sér að bóknámi að mestu þar sem hver kennslustund er margfalt ódýrari. Verknámsgreinarnar hafa gefið eftir og eru nú hornreka í starfsemi skólanna. Það er áríðandi að gripið sé til markvissra aðgerða til að rétta hlut verknámsins samhliða því að tryggja því það fjármagn sem til þarf. Það mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt atvinnulíf ef hrunadans verknámsins heldur áfram. Fyrst og fremst þarf þó að breyta uppbyggingu og samsetningu náms í grunnskólum og gera list- og verknámsgreinunum hærra undir höfði. Nánast engin verkleg kennsla á sér stað á grunnskólastiginu, heldur er að mestu lögð áhersla á bóklegu greinarnar. Þetta fyrirkomulag mismunar nemendum verulega og tekur ekkert tillit til þess hve ólíkir einstaklingarnir eru að gerð og þess á hve ólíkum sviðum hæfileikar manna liggja. Til að skapa börnum jöfn tækifæri strax í grunnskóla þarf að byggja upp fjölbreyttara nám sem þroskar verksvitið samhliða bókvitinu.

Staðreyndin er því miður sú að bóknám er álitið skör hærra hér á landi en list-, verk- og iðnmenntun. Það verður að veita til verknámsins nægilegt fjármagn, endurskoða námsefnið, kynna kosti þess markvisst fyrir ungu fólki, auka kennslu þess í grunnskólum, vinna að hugarfarsbreytingu til námsins og treysta tengsl þess við atvinnulífið. Einungis með því móti fær það notið sannmælis og virðingar samtímans.

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur lýst áhuga á að efla verknám. Er það vel og vonir bundnar við störf hans og áhuga á náminu. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hvernig ætlar hæstv. menntmrh. að bregðast við þeirri staðreynd að hefðbundnar iðngreinar hafa verið í sívaxandi vörn eins og 14% fækkun sveinsprófa sl. áratug vitnar um?

2. Hvernig hyggst hæstv. menntmrh. bregðast við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið upp á síðkastið að reiknilíkanið sem notað er til dreifingar á fjármagni til framhaldsskóla skili verknámi ekki því sem eðlilegt er til að halda því úti með sómasamlegum hætti?