Tækni- og iðnmenntun

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 13:49:07 (3709)

2003-02-11 13:49:07# 128. lþ. 76.94 fundur 421#B tækni- og iðnmenntun# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[13:49]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. segir að horft sé björtum augum til framtíðar í menntmrn. hvað varðar iðnnám, starfsnám og verknám. Guð láti gott á vita, við skulum sjá til þegar líður nær framtíðinni en hér erum við stödd í núinu. Það er núna sem við þurfum á því að halda að efla starfstengt nám á öllum skólastigum og það er núna sem ákveðin mismunun ríkir í skólakerfinu út af gölluðu reiknilíkani. Það er núna sem Verkmenntaskólinn á Akureyri kvartar yfir því að hann þurfi að endurgreiða ríkinu 28 millj. kr. fyrir árið 2001 vegna brottfalls nemenda. Og ég spyr, herra forseti: Er forsvaranlegt að reka svona refsistefnu? Það er verið að gera það í dag gagnvart verknámsskólunum. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst við hafa haldið verknámsskólunum í fullmikilli spennitreyju. Ef við höfum í alvöru vilja og döngun í okkur til að efla ímynd verknáms og iðnnáms út um allt land, þá eigum við að gera það með bros á vör og vera hnakkakerrt við það. Við eigum ekki alltaf að karpa um það hvort þetta reiknilíkan sé gott eða ekki gott. Það er ekki gott eins og framhaldsskólastjórnendur hafa margoft vikið að. Reiknilíkanið er gallað. Það er gott að reynt skuli að leiðrétta það í menntmrn. en það er ekki nógu gott að við skulum ekki geta unnið hlutina hraðar en raun ber vitni. Það er auðvitað mjög miður að það skuli þurfa að bíða jafnlengi og raun ber vitni eftir þeim leiðréttingum sem nauðsynlegt er að gera á þessu reiknilíkani. Það er t.d. sárgrætilegt að þessar þreyttu einingar sem gerð er krafa um að skólarnir fái beinlínis greitt eftir samkvæmt reiknilíkaninu, skuli vera ófrávíkjanleg krafa því að það gerir það að verkum að nemendur sem eiga erfiðara í námi eru látnir mæta afgangi. Ég fullyrði það, herra forseti, að nemendur sem ekki fylla þreyttar einingar verða meiri baggi á samfélaginu síðar heldur en ef við leggjum þeim lið á námstíma.