Tækni- og iðnmenntun

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 13:53:41 (3711)

2003-02-11 13:53:41# 128. lþ. 76.94 fundur 421#B tækni- og iðnmenntun# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[13:53]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Iðnnám hefur átt undir högg að sækja í menntakerfinu að því leyti að bóknámið hefur oft verið skilgreint sem hið svokallaða æðra nám og meiri áhersla hefur verið lögð á það en iðn- og verknámið. Þróunin hefur kallað á nýja tækni við kennslu tækjabúnaðar og stöðuga endurnýjun þarf til þess að skólarnir hafi yfir að ráða tækjum og tölvubúnaði sem er sambærilegur þeim sem algengastur er og atvinnulífið notar. Ávallt þarf að standa vel að endurnýjun kennslubúnaðar ef námið á að uppfylla skilyrði atvinnulífsins. Námið verður dýrara vegna endurnýjunar kostnaðarsams tækjabúnaðar.

Vandi iðn- og tækninámsins er fjármagnsvöntun. Reiknilíkanið svokallaða hefur verið gagnrýnt af stjórnendum framhaldsskólanna m.a. af því að það taki ekki nægilegt mið af mismunandi starfsemi skólanna. Stjórn Kennarasambands Íslands hefur bent á að árum saman hafi verið mörg hundruð millj. kr. mismunur á fjárveitingum og raunverulegum rekstrarkostnaði skólanna. Fjárhagsvandi framhaldsskólanna í landinu nam í árslok 2002 samanlagt 1.270 millj. kr. að mati Skólameistarafélags Íslands og Félags íslenskra framhaldsskóla. Hluti af þessu er uppsafnaður fortíðarvandi. Af þessum ástæðum er hætta á að iðn- og tækninám verði eftirbátur atvinnulífsins og nái ekki að fylgja eftir þróuninni og verði þar með dragbítur á vöxt og nýsköpun í iðnaði.