Tækni- og iðnmenntun

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 14:06:34 (3717)

2003-02-11 14:06:34# 128. lþ. 76.94 fundur 421#B tækni- og iðnmenntun# (umræður utan dagskrár), KÓ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Hér erum við að ræða um tækni- og iðnmenntun. Segja má að þetta sé ekki beinlínis utandagskrárefni í sjálfu sér. En málið er mikilvægt. Það er ljóst. Þetta sýnir að kosningar eru í nánd og þess vegna er það kannski hér til umræðu utan dagskrár.

Reiknilíkanið hefur komið til tals í þessari til umræðu. Það kom skýrt fram á menntadegi iðnaðarins þar sem farið var nokkuð yfir þessi mál að tekið er tillit til mismunandi fjárfestinga í hinum breytilegu skólum, hvort heldur þeir eru með bóknám eða dýrt nám á við iðnmenntun og tæknimenntun. Það er gert. Það er að sönnu rétt.

Jafnframt hefur margoft komið fram að skólarnir eru reknir mjög mismunandi. Um það bil einn þriðji af framhaldsskólunum er rekinn fyrir ofan núllið og með hagnaði. Aðrir skólar, um einn þriðji þeirra, er svona við núllið, við þau mörk sem gert er ráð fyrir og um það bil einn þriðji er undir þessum mörkum. Það hlýtur að segja að með framþróun þessa reiknilíkans er verið að ganga veginn til réttrar áttar. Mér finnst að hv. fyrirspyrjandi og málshefjandi hefði þurft að kynna sér betur reiknilíkanið sem slíkt.

Við ræðum nú um framhaldsskólana og sérhæfingu þeirra og ég held að nauðsynlegt sé í þessari umræðu að huga að sérhæfingu framhaldsskólanna, ekki síst úti á landsbyggðinni þar sem nemendur vilja stunda sitt nám og það hlýtur að gerast með því að grunnnámið, upphafsnámið í framhaldsskólunum verði úti á landsbyggðinni og síðan verði sérnámið tekið við þá skóla sem taka það að sér og eru sérútbúnir til þess að veita þá sérfræðimenntun. Ég held að það sé alveg ljóst.

Ég vil leggja mikla áherslu á mikið og gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins og vitna til þess að í lögum frá 1996 er gert ráð fyrir víðtæku samstarfi skólanna og atvinnulífsins með starfsgreinaráðunum.