Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 14:38:06 (3721)

2003-02-11 14:38:06# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[14:38]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur farið hér yfir frv. Samfylkingarinnar um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og komið til skila helstu áherslum flokksins í þessum málum.

Herra forseti. Ég ætla aðeins að fara yfir það kerfi sem við nú búum við og einnig að fara yfir og dýpka það sem hér kom fram í ræðu hv. þm. þannig að sem flestum megi vera ljóst hvernig staðan er og hvernig hún gæti orðið.

Við búum núna við það kerfi að útgerðarmenn á Íslandi fá úthlutað veiðirétti í samræmi við reynslu sem menn öðluðust fyrir u.þ.b. 20 árum síðan. Sú reynsla hefur gengið kaupum og sölum og ekkert fyrir löngu kom forusta útvegsmanna upp með það að það væri mikið óréttlæti að ætlast til þess að menn borguðu fyrir veiðiheimildir af því að þeir væru búnir að kaupa þær. En af hverjum keyptu þeir þær, herra forseti? Jú, þeir keyptu þær af öðrum útvegsmönnum. Þessir nýju eigendur urðu líka til við samruna fyrirtækja, við breytingar hjá smábátaútgerðarmönnum sem bjuggu til ehf. úr útgerðinni sinni og við ýmislegt fleira sem hefur verið að gerast á síðustu árum.

Forusta útvegsmanna gleymdi líka að segja þjóðinni frá því að lögin eru þannig að enginn hefur getað gengið að því nokkurn tíma vísu að þó að hann seldi eitthvað eða keypti þá stæði það til eilífðarnóns. Þvert á móti hefur það legið fyrir, m.a. í hæstaréttardómi, að Alþingi gæti með tiltölulega stuttum fyrirvara gjörbreytt þessari umgjörð. Þeir sem hafa verið að kaupa og selja hafa því gert það fullkomlega á eigin ábyrgð og í trausti þess að um það yrði séð að engu yrði raskað. Því hefur enda verið lofað og við það hafa ákveðnir aðilar reynt að standa.

Herra forseti. Þó svo að mál standi enn þannig að hér er úthlutun á ókeypis veiðirétti árlega þá er býsna mikill pólitískur þrýstingur enn þá á þetta mál. Mitt mat er að ýmislegt af því sem þau stjórnvöld sem þéttast hafa staðið utan um ókeypis úthlutun veiðiréttar hafa verið að gera á undanförnum árum hafi beinlínis grafið undan kerfinu með þeim hætti að einn góðan veðurdag hljóti það að bresta. Þá er spurningin, herra forseti, hvernig það muni gerast, eftir hvaða leikreglum þá verður unnið, hverjir munu þá verða til þess að leiða þær breytingar sem óhjákvæmilegar eru að mínu mati.

Það hefur verið sárgrætilegt fyrir býsna marga að horfa upp á það hvernig farið hefur verið með veiðiréttinn þegar þeir sem hafa fengið honum úthlutað hafa mátt ráðstafa honum eins og einkaeign sinni. Það er nefnilega þannig að eftir að búið er að úthluta veiðiréttinum þá eru lög og reglur þannig að það er nánast fullur einkaeignarréttur á veiðiréttinum. Hann má ganga kaupum og sölum. Hann má leigja. Þær takmarkanir sem settar hafa verið eru afar litlar og hafa ekki staðist. Menn hafa fundið leiðir.

En það er ekki eins og það hafi verið nóg, herra forseti, heldur var skattalögum breytt til þess að þeir sem eru að losa stóru fúlgurnar úr sjávarútvegi gætu nú áfram ávaxtað sitt pund og það án þess að greiða skatta. Um það vitna m.a. eignarhaldsfélögin í Lúxemborg og víðar þangað sem menn hafa getað flutt peningana sína og komist hjá því að greiða eðlilega skatta á Íslandi. Þetta svíður venjulegum skattpíndum launaþræl á Íslandi og þarf engan að undra.

Við höfum ekki bara verið með tillögur um að breyta þessu úthlutunarkerfi fiskveiða. Við höfum líka verið með tillögur um að breyta skattkerfinu frá þessari tilhögun. Það var jú þannig að mönnum ofbauð svo hér fyrir tveimur eða þremur árum að ríkisstjórnin fór í að lagfæra þetta ákvæði örlítið. En tillaga okkar, sem var rædd og skoðuð samhliða, náði ekki fram að ganga. Menn voru einfaldlega ekki tilbúnir að setja skorður við því að menn gætu haldið áfram að losa peninga út úr sjávarútveginum og flytja skattlítið til útlanda.

Herra forseti. Auðvitað gremst íslenskri alþýðu. Auðvitað gremst fólki að horfa upp á þetta. Annað væri óeðlilegt. Sem betur fer er réttlætiskennd þjóðarinnar enn þá slík.

Herra forseti. Ég hef ekki nefnt þau félagslegu áhrif sem þetta kerfi hefur haft, þau félagslegu áhrif sem það hefur haft að sumir gátu skyndilega haft líf og eignir fólksins í þorpinu í hendi sér. Þetta hefur orðið til þess að heilu sjávarbyggðirnar hafa nánast rifnað í sundur og fólksflóttinn hefur verið meiri en nokkru sinni fyrr. Til þess að reyna að bjarga einhverju hafa menn farið í nokkra leiðangra, búið sér til nokkra potta, farið í handstýrðar, viðbótarhandstýrðar útdeilingar á veiðirétti og nú er svo komið að yfir 12 þús. tonn eru komin í sex potta sem deilt er úr eftir atvikum. En, herra forseti, þessir pottar hafa ekki bætt ásýnd fiskveiðistjórnarkerfisins.

Menn velta því stundum fyrir sér þegar verið er að tala um tillögur Samfylkingarinnar um fyrningu hvort hér sé ekki farið fram með of mikilli ákefð, hvort hér sé ekki verið að ganga of nærri útgerðinni, hvort menn muni láta sér þetta nokkurn tíma lynda, hvort ekki sé verið að fara úr öskunni í eldinn. Það er ágætt að menn velti því fyrir sér.

[14:45]

En ég vil, herra forseti, nefna að það eru fordæmi fyrir skerðingum. Það eru fordæmi fyrir því að menn hafi ekki fengið það sem þeir töldu sig eiga. Hvaðan halda menn að aflinn sem er í pottunum sex komi? Auðvitað hefur sá veiðiréttur sem menn töldu sig einu sinni hafa nokkuð vísan aðgang að verið að breytast frá ári til árs eftir ýmsum þeim leiðum sem stjórnvöld hafa viðhaft þegar þau hafa þurft að grípa inn í eða viljað grípa inn í, eftir atvikum --- stundum rétt fyrir kosningar.

Það hefur líka verið nefnt, herra forseti, að þeir sem fengu veiðiréttinum úthlutað, miðað við reynsluna fyrir um 20 árum, hafa sannarlega fengið umþóttunartíma. Það var varið af býsna mörgum að menn yrðu að fá veiðiréttinn ókeypis, að útgerðin hefði liðið fyrir stjórnleysi, væri skuldug o.s.frv. En, herra forseti, sannarlega hafa menn fengið tækifæri.

Í 20 ár hafa menn fengið veiðiréttinum á Íslandsmiðum meira og minna úthlutað ókeypis og sannarlega hefðu menn getað lagað til hjá sér. Reyndar hefur alltaf verið gripið reglulega inn í þá tiltekt. Stundum hefur stjórnvöldum ekki fundist nóg um og komið til skjalanna til þess að enn frekar mætti skúra út, t.d. með Þróunarsjóði og fleiri slíkum aðgerðum sem hafa verið ætlaðar til að menn tækju enn betur til hjá sér. En sannarlega hafa menn fengið umþóttunartíma.

Herra forseti. Til viðbótar því sem ég talaði um áðan, að menn hafi raunverulega aldrei getað gengið að því vísu í löggjöfinni að þeir ættu eitt eða neitt, kemur auðvitað það að ef fyrirkomulag okkar yrði tekið upp, fengju menn jú samning um veiðirétt, menn væru í raun að gera samkomulag við stjórnvöld um frið í ákveðinn tíma. Við erum að bjóða upp á starfsöryggi sem er ekki að finna í núgildandi löggjöf.

Herra forseti. Menn hafa líka haft áhyggjur af því að útgerðin kynni sig ekki á uppboðum á veiðirétti, menn kynnu ekki að athafna sig við slíkar aðstæður. Það finnast mér einhver skemmtilegustu mótrökin sem ég heyri vegna þess að á Íslandi hefur verið virkur markaður með veiðirétt árum saman. Veiðiréttur gengur kaupum og sölum. Veiðiréttur er leigður og útgerðarmenn vita nákvæmlega hvernig þeir eiga að bera sig til og hvernig á að verðleggja auðlindina þegar þeir sjálfir höndla með hana. Þeim hefur ekkert förlast í þeim efnum trúi ég. Þótt okkar fyrirkomulagi væri komið á, þá mundu þeir væntanlega halda áfram þaðan sem frá væri horfið og taka þátt í að afla sér veiðiréttar með því að kaupa hann, nýta hann síðan og eftir atvikum að vinna með hann eins og sú löggjöf sem þá tekur við mun leyfa.

Herra forseti. Veiðigjaldið sem ríkisstjórnin setti á sl. vetur og átti að vera til sátta mun aldrei sætta neitt. Útgerðin greiðir nú þegar ákveðin gjöld, þróunarsjóðsgjald sem hér var áður nefnt og veiðieftirlitsgjald, fyrir utan smáskítaskatta eins og vitagjöld og fleira skemmtilegt. Ríkisstjórnin vill hafa það þannig að þegar kemur að því að útgerðin greiði veiðigjald falli önnur gjöld niður á móti. Ekki er það líklegt til sátta, herra forseti. Þar skiptir þó mestu máli að kerfi ríkisstjórnarinnar breytir í engu því sem styrinn hefur staðið um, sem er úthlutun veiðiréttarins, hverjir fá. Það breytir í engu því að það ríkir ekki jafnræði meðal þeirra sem vilja stunda útgerð á Íslandsmiðum.

Að því leyti er málið kannski alvarlegast, herra forseti. Ein af undirstöðum efnahagslífsins á Íslandi, einn burðarásinn, fiskveiðar og sjávarútvegurinn eru orðinn lokað einokunarkerfi þar sem mismiklar kröfur eru gerðar til manna.

Því hefur verið haldið fram í mín eyru að í mörgum þeirra útgerða sem hafa verið á gjafakvótum sé býsna mikill slaki, enda þurfi menn svo sem ekkert að sperra sig. Þeir fá bara kvótann sinn hvort eð er. Aðrir hafa reynt að hasla sér völl, hafa þurft að kaupa allar sínar veiðiheimildir á því uppsprengda verði sem félagar þeirra í bransanum hafa talið eðlilegt á þeim tíma að selja veiðiréttinn á. Þeir hafa þurft að vanda sig og sýna útsjónarsemi. Það er dálítið mikill munur þarna á. Það er munur á því, herra forseti, hvort menn eru í stöðu þess sem fær veiðiréttinn þegar nýtt fiskveiðiár hefst, fær að vita hvað hlutdeildin hans gefur, eða hinna sem þurfa reglulega að greiða fyrir veiðiréttinn og til þeirra sem fá bréf um ókeypis úthlutun.

Herra forseti. Það verður aldrei sátt um þessa aðferð við úthlutun á réttindum. Hér erum við að tala um sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Við erum að tala um auðlind sem er takmörkuð. Þegar menn ræða um úthlutun á takmörkuðum gæðum í almannaeigu eru menn almennt sammála um að mest réttlæti, það jafnræði sem hægt er að ná, náist fyrst og fremst í gegnum uppboð. Mesta jafnræðið fæst í gegnum það að öllum sé gefinn kostur á að bjóða í, gefinn kostur á þátttöku.

En það er svo sérkennilegt að þegar röðin kemur að sjávarauðlindinni þá hverfa menn frá. Þá verða talsmenn þess að hér ríki frelsi í viðskiptum skyndilega stuðningsmenn einokunar. Þá verða þeir sem áður hafa viljað uppboð eða útboð, þegar um er að ræða takmörkuð gæði, skyndilega allt annarrar skoðunar og vilja vernda þann hóp sem hefur notið forréttinda.

Herra forseti. Samfylkingin getur ekki tekið undir með slíkum. Það er grundvallaratriði í stefnu okkar að vinna gegn sérhagsmunum fyrir almannahagsmuni. Almannahagsmunir verða aldrei tryggðir nema við tryggjum jafnræði þegnanna. Sem betur fer hefur mannréttindabarátta síðustu aldar leitt okkur áfram til ríkari mannréttinda á hverjum tíma og ríkari réttinda hvers og eins. Það er samt svo, herra forseti, að stjórnvöld sem bundin eru af hagsmunum einstakra hópa beita sér fyrir hönd þeirra og komast upp með það.

Herra forseti. Ég er nokkuð viss um að stjórnvöld muni ekki öllu lengur komast upp með það sem þau hafa þó komist upp með í þessu máli. Ég held að þjóðin sé löngu orðin södd þegar horft er til þess hvernig farið hefur verið með þessa sameiginlegu auðlind. Ég held líka að þjóðinni muni ofbjóða þegar hún lítur til þess hvernig núverandi ríkisstjórn fer með og vill fara með aðrar sameiginlegar auðlindir.

Herra forseti. Ég er sammála orðum 1. flm. þessa frv. Þjóðin mun örugglega kjósa um þetta í vor. Hún mun kjósa um það hvort ríkja eigi jafnræði meðal þegnanna eða hvort sérhagsmunagæslan á að halda áfram. Herra forseti. Ég er nokkuð viss um hver niðurstaðan verður.