Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 15:53:28 (3726)

2003-02-11 15:53:28# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[15:53]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að eiga orðastað við hv. þm. Jóhann Ársælsson í andsvari um þetta mál vegna þess að hann gerir sér auðvitað grein fyrir því eins og ég að við skrifum hvor okkar óskatexta inn í þetta mál og vissulega þarf að finna flöt á því að vinna sig út úr því kerfi sem við höfum komið upp og hefur verið fest í sessi á undanförnum árum. Það er náttúrlega verðugt verkefni næstu ríkisstjórnar tel ég vera að vinna sig út úr því sem formenn stjórnarflokkanna hafa kallað sáttina miklu, sáttina um óbreytt fyrirkomulag. Þegar menn náðu að tala sig frá því í síðustu alþingiskosningum að um þetta mál yrði ekki sérstaklega kosið vegna þess að búið væri að ákveða það í ríkisstjórnarflokkunum að sköpuð yrði sátt í málinu, þá verður þeirri sátt ekki logið aftur yfir þjóðina. Það er alveg ljóst. Íslendingar eru að langmestu leyti mjög vel gefið fólk. Og forsrh. lýgur því ekki eina ferðina enn að sáttin sé eitthvað sem menn eigi að kjósa um. Það er búið að segja þjóðinni það. Sú sátt er ekki til. Hún er ekki á borðunum. Það er engin sátt um þetta kerfi. Það eina sem er að gerast er að áfram er verið að rífa réttinn af byggðunum og réttinn af fólkinu. Og um slíka framtíð getur aldrei orðið nein sátt í þjóðfélaginu. Þess vegna tek ég undir það sem hv. þm. sagði hér áðan: Auðvitað er hægt að leysa þetta mál með viðræðum.

(Forseti (GÁS): Forseti vill beina þeim góðfúslegu ábendingum til hv. þm. að gæta aðeins að orðavali.)

Það er mín skoðun, herra forseti.

(Forseti (GÁS): Forseti virðir hana.)