Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 15:58:01 (3728)

2003-02-11 15:58:01# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[15:58]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil víkja aðeins að einu atriði í þessu andsvari og það er að aðlögun þurfi fyrir þá sem hafa verið að kaupa kvótana. Ef þeir sem hafa verið að kaupa kvóta á undanförnum árum hafa vissu fyrir því að þeir fái að gera út á þær aflaheimildir sem þeir hafa verið að kaupa um einhvern tíma, þá er það þeim nægileg aðlögun. Þaðan eiga þeir að taka tekjurnar. Þess vegna held ég að menn eigi að fara í þetta tiltölulega bratt og byrja á strandveiðiflotanum, því þar er styst síðan menn fóru inn í þetta kvótakaupakerfi, þar voru menn í þorskaflahámarkskerfi fyrir eigi löngu síðan og ef þar er breytt yfir í sóknarstýrt kerfi er ekki verið að taka veiðiréttinn af mönnum og ekki atvinnuréttinn, þeir þurfa eingöngu að sækja tekjurnar í sjóinn.