Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 16:01:12 (3730)

2003-02-11 16:01:12# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[16:01]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er ekki til umræðu í fyrsta sinn og svokölluð fyrningarleið hefur verið margrædd hér á Alþingi. Ég hef velt fyrir mér hvernig framkvæmdin á slíku máli gæti orðið ef farið væri að vinna eftir þessum hugmyndum. Það sem ég hef séð stoppa allt svona af er í raun sú heimild sem er í lögum um að veðsetja aflaheimildir. Veðsetning þessara heimilda er heimil samkvæmt lögum. Hún er ekki bönnuð, hún er heimil með skipum. Og þar sem aflaheimildirnar eru veðsetjanlegar með skipunum er ekki hægt að horfa fram hjá því að einhver réttur hlýtur að vera hjá útgerðarmanninum. Við getum sagt að það sé eitthvað sem Alþingi hefur heimilað að gera og ekki verður tekið af mönnum öðruvísi en að bæta það.

Ég hef ávallt verið stuðningsmaður þess að reyna að stjórna fiskveiðunum þannig að við sæjum að fiskstofnarnir viðhéldust og að veiðarnar væru til þess að viðhalda byggð í landinu. Það var hugmynd okkar þegar þessi aðferð var tekin upp á sínum tíma. Ég held að allir sem tóku þátt í kvótasetningunni 1983 og 1984 hafi verið sammála því að þetta væri neyðarbrauð, það væri verið að bregðast við síminnkandi fiskstofnum og sívaxandi sóknarþunga, og einhvern veginn þyrfti að ná utan um málið.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og það hefur ýmislegt komið upp í þessari stjórnun sem ég hef verið ósáttur við, og fleiri. Ég var mjög ósáttur við það að veðsetningin yrði heimiluð á sínum tíma og taldi að þar með væru menn búnir að geirnegla sig þannig að það yrði mjög erfitt að komast frá þessu aftur. En allt þetta þarf náttúrlega skoðunar við.

Ég fylgdist með því, eins og aðrir, að hæstv. sjútvrh. tók steinbítinn út úr kvóta fyrir þremur árum, og af því urðu engin eftirmál. Steinbíturinn var settur inn í kvóta aftur reyndar. Síðan hefur verið tekið upp á því að setja miklu fleiri tegundir inn í kvóta en nokkrum manni hafði dottið í hug, m.a. skötusel, keilu, löngu o.s.frv. þannig að nú eru nánast allar fisktegundir sem synda í kringum landið komnar í kvóta. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér það sjálfur að svona margar tegundir yrðu settar í kvóta. Ég hef það fyrir satt frá mönnum hjá Hafrannsóknastofnun að það væri alveg nægjanlegt að vera með þorsk, ýsu, karfa og grálúðu í kvóta ef við ætluðum að halda utan um meginfiskstofnana. Allt hitt er meira og minna meðafli og ástæðulaust að vera með það í kvóta.

Síðan er spurningin hvað gerðist ef kvóti yrði tekinn af grálúðunni og karfanum. Er útgerðin með skaðabótarétt? Ég velti því fyrir mér eftir að sjútvrh. afnam kvótasetningu á steinbít hvort svo sé. Sjútvrh. hefur nefnilega alveg gríðarleg völd. Hann getur sett kvóta á tegundir og afnumið kvóta af tegundum, virðist vera, eftir því sem honum sýnist. Því hefur ekki verið mótmælt. Ég hef sjálfur haldið því fram að veðsetningin geirnegldi þetta en það má vel vera að ég hafi rangt fyrir mér. Það hefur ekki reynt á það. Ég hef hugleitt dálítið þessar aðferðir sem Samfylkingin reynir að fara, að afnema kvótann á tíu árum. Þetta er gríðarlega langur tími. Það fara í þetta tvö, þrjú kjörtímabil og ég veit ekki ... (RG: En leiðin sjálf?) Ég held að leiðin sé mjög erfið. (RG: En leiðin sjálf?) Það er mjög erfið leið að afnema 10% af kvótanum á ári og úthluta þeim svo einhverjum öðrum.

Ég er enn á þeirri skoðun að þeir sem keyptu kvótann eða fengu honum úthlutað hafi fengið hann vegna heimilda frá Alþingi og við séum þá skuldbundin til þess að leiðrétta það, að greiða þeim til baka það sem þeir hafa fjárfest í ef við ætlum að afnema þennan rétt. Ég mundi segja að það væri heiðarlegri afstaða ef menn vildu bara afnema kvótann með því að greiða skaðabætur og ná inn skaðabótunum með leigu. Þar með væri búið að setja undir þann leka.

Ýmsir aðilar ráku sjálfsagt upp stór augu, það gerði ég þegar ég heyrði að stærstu útgerðarfyrirtækin í landinu eru að biðja um að þakinu á kvótanum verði lyft og að heimilað verði að sama útgerðarfyrirtækið eigi 20% af öllum heildarkvóta landsmanna. Ég verð að segja eins og er að það er ansi langt seilst ef það verða ekki nema fimm útgerðarfyrirtæki eftir á landinu eftir 10--15 ár. Ég velti því þá fyrir mér hvernig menn hugsa sér að framkvæma það. Ég geri ekki ráð fyrir að það verði hægt að stjórna því neitt. Ég hugsa að það þýddi mun meiri byggðaröskun en við höfum séð fram að þessu ef útgerðarfyrirtækjum yrði fækkað niður í fimm. Við sem vorum að þessu á sínum tíma, fyrir 20 árum, veltum því reyndar aldrei fyrir okkur svo að ég muni að samþjöppunin í kvótakerfinu eða í aflaheimildunum yrði slík að við sæjum fram á að hér yrðu aðeins fimm fyrirtæki. Þegar svona öflug fyrirtæki eins og Eimskipafélag Íslands er farið að krefja um þetta gæti verið stutt í að það yrði heimilað. En ég er ekki að segja að það verði. Ég hef ekki heyrt annað á stjórnvöldum en að þau muni ekki geta sætt sig við það. Ég hef reyndar heyrt það frá sjútvn. að þau telji þetta ekki óeðlilegt en það eru skiptar skoðanir um málið.

Ég held að menn hljóti að verða að skoða mjög rækilega hvernig eigi að halda við því kerfi sem við notum í dag án þess að nánast verði komið á örfáar hendur allt sem veiðanlegt er í sjónum. Ég held að þetta geti líka tengst umræðunni um Evrópusambandið því nú hefur það verið eitt helsta ágreiningsefni manna um inngöngumöguleika í Evrópusambandið að sjávarútvegurinn væri það mikilvægur fyrir okkur og fyrir byggð í landinu að það væri ekki hægt undir núverandi kringumstæðum að flytja þetta allt út til Brussel. En ef það eru orðin örfá útgerðarfyrirtæki sem stjórna þessu öllu hvort sem er, sem þar að auki hafa lýst því yfir að þau væru jafnvel tilbúin til þess að fara með vinnsluna úr landi, er náttúrlega spurning hvað við séum þá að tala um. Ég held að þessi mál séu farin að fara í dálítið annan farveg núna en við höfum séð áður. Ég vara við því að farið verði að auka við aflaheimildir á hvert einstakt fyrirtæki eins og talað er um núna eða lyfta kvótaþakinu úr 12% upp í 20%. Ég mundi segja að það væri afskaplega alvarleg þróun. Frekar ætti að lækka þetta þak. Vald útgerðarmanna yfir byggðarlögunum er orðið nógu mikið. Þeir eru náttúrlega eins misjafnir og þeir eru margir. Sem betur fer eru útgerðarmenn flestir hinir vænstu menn og hafa keypt kvóta samkvæmt þeim lögum sem sett voru á Alþingi þannig að það er ekki við útgerðarmennina að sakast í þessum efnum. Það erum við sem settum þessi lög, og forverar okkar á þingi.

Mig langaði aðeins til að spyrja hv. þm. Jóhann Ársælsson að því hvort hann og hans flokkur hefðu eitthvað skoðað það hvernig mætti gera þetta hraðar fyrst þau á annað borð vilja taka kvótann af, hvort það hafi verið skoðað út frá lagalegu sjónarmiði hvort skaðabótarétturinn sé til staðar og hvort skapast mundi einhver skaðabótaskylda ef t.d. kvótinn yrði tekinn af mörgum þessara tegunda sem eru svokallaður meðafli. Ég held að það væri alveg full ástæða til að skoða þessi mál þannig að menn vissu hvar þeir stæðu, fara a.m.k. eins langt í því og hægt er.