Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 16:24:21 (3736)

2003-02-11 16:24:21# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[16:24]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að nokkuð margar fisktegundir voru inni í kvótanum fyrsta árið og síðan felldar út. Þá var nú reyndar, eins og hv. þm. man örugglega betur en ég, verið að keyra áfram á kvótakerfi og sóknardagakerfi. Það var verið að taka úr öllum stofnum eftir mörgum kerfum. Síðan veiddu aðrir bara frjálst, t.d. smábátar sem voru reyndar mjög fáir í þá daga. Þetta er því búið að breytast mjög mikið á þessum 20 árum.

Ég velti einmitt þeirri spurningu fyrir mér eins og hv. þm. hvort sú staða gæti verið uppi, þó að maður hafi haldið annað, að sjútvrh. geti kippt öllu út úr kvóta ef honum sýnist svo án þess að nokkur einasta ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að fyrir það mætti krefjast skaðabóta af ríkinu. Ég verð að segja eins og er að mér finnst það dálítið sérstakt að þetta skuli vera hægt.

En bara varðandi kvótakerfið sem slíkt þá held ég að það hafi þjónað markmiði sínu þokkalega, þó ekki alveg nægjanlega á öllum sviðum. En það er samt ekki kerfi sem ég get séð að þurfi að vera hér til eilífðarnóns og auðvitað hljóta menn að velta fyrir sér nýjum leiðum sem meiri sátt getur orðið um og þjónuðu betur þeim tilgangi sem upphaflega var farið af stað með.