Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 16:47:21 (3741)

2003-02-11 16:47:21# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[16:47]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. var á móti veðsetningarfrv., hann má eiga það. Það var hin rétta afstaða og ég tek ofan fyrir honum fyrir það. Hann hefur áhyggjur af því að það stefni í einokun í þessari grein, og það hef ég líka. Með tillögu okkar yrði hins vegar einokuninni alveg tvímælalaust aflétt vegna þess að þá eignast ekkert fyrirtæki framtíðarrétt til að veiða. Það verður alltaf að keppa við önnur fyrirtæki á markaðnum um veiðiréttinn, og það hafa allir sama rétt til þess að fara í þessa atvinnugrein og menn hafa til þess að fara í aðrar atvinnugreinar. Hún er ekki lokuð. Menn þurfa ekki að kaupa réttinn af þeim sem fyrir eru til þess að hefja rekstur í útgerð. Til þess að hægt verði að breyta þessu í sátt við atvinnugreinina þurfa menn að velta fyrir sér við hverja á að tala. Það verður örugglega ekki hægt að breyta þessu í sátt við atvinnugreinina ef það er meiningin að tala bara við stórútgerðarmenn, þá sem eiga auðlindina samkvæmt fyrirkomulaginu sem er núna. Ég tel að menn verði að horfast í augu við að þetta getur orðið dálítið erfitt. Það getur orðið erfitt að fara þessa leið vegna þess að öflugir aðilar verði á móti.

Ég segi eins og er, og það kom í ljós á þessu kjörtímabili, að í stjórnarflokkunum hafa þessir aðilar slík heljartök á forustumönnum stjórnarflokkanna og þinginu að það var ekki hægt að ganga lengra. Menn gáfust upp og kiknuðu fyrir því valdi sem er fólgið í stóru fyrirtækjunum og þeim sem þar stjórna.