Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 16:49:32 (3742)

2003-02-11 16:49:32# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[16:49]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef orðið var við það að útgerðarmenn eru tilbúnir til þess að beita valdi sínu óvægilega. Ég kynntist því þegar við lögðum fram frv. til laga um að skylda skip til að koma með allan afla að landi af fullvinnsluskipum, og önnur eins áróðursskrif hef ég ekki séð lengi frá útgerðarmönnum í garð okkar flm. sem voguðum okkur að leggja þetta fram í þinginu. Ég verð að viðurkenna að ég hrökk illilega við þeim ofsa sem mér fannst koma fram hjá útgerðarmönnum gegn öllu því sem átti eitthvað að leiða til minni hagnaðar en eigi að síður sambærilegrar arðsemi fyrir þjóðarbúið og jafnvel meiri arðsemi fyrir þjóðarbúið. Í þessu tilfelli var það tvímælalaust. Þegar ég tala um sátt við atvinnugreinina minni ég á að í henni eru sjómenn, útgerðarmenn, fiskverkendur og fiskverkafólk. Síðan er fólk úti um allt land, sveitarstjórnarmenn og aðrir. Auðvitað er það meiri háttar mál að gera grundvallarbreytingu á þessu kerfi í dag. Það er meiri háttar mál.

Ég held, eins og ég sagði áðan, að menn hljóti að þurfa að fara að hugsa sig dálítið um hvernig þetta er að þróast. Við megum ekki láta þetta þróast þannig að ekki verði aftur snúið. Það er enn hægt að breyta ýmsu í þessu kerfi án þess að það hafi alvarlegar afleiðingar og ég hef bent á að það er fullt af tegundum í kvóta sem þurfa ekkert að vera þar. Þeim má kippa út úr kvóta hvenær sem er án nokkurra afleiðinga og síðan má reyna að þróa sig út úr þessu kerfi. Ég er ekki með neina formaða tillögu um það en ég tel fulla ástæðu til þess að skoða fleiri leiðir en þessa.