Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 16:51:49 (3743)

2003-02-11 16:51:49# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[16:51]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er meiri háttar mál að breyta þessu. Ég er hins vegar algjörlega sannfærður um að það er hægt að fara þá leið sem við erum að leggja fram tillögu um að verði farin og að það muni ekki valda neinum kollsteypum heldur gera sjávarútveg og útgerð á Íslandi heilbrigðari en er í dag. Það verður meiri sátt í framtíðinni um það fyrirkomulag sem við erum að leggja til heldur en það fyrirkomulag sem er núna. Það er ég sannfærður um.

Hv. þm. nefndi það hvers konar viðbrögð hann fékk þegar hann bar fram tillögu um það að menn yrðu skyldaðir til að koma með allan afla að landi. Það sýnir í hnotskurn hvers konar yfirhalningar ýmsir þeir hafa fengið sem hafa viljað fara aðrar leiðir en forustan í LÍÚ hefur viljað fara á undanförnum árum. Þar hafa menn sko fengið til tevatnsins. Og það var það sem ég meinti áðan þegar ég sagði að þessir flokkar sem eru nú við völdin á Íslandi og hafa verið undanfarin átta ár væru ófærir um að breyta þessu kerfi. Það sýndi sig þegar Framsfl. ætlaði að fjalla um sjávarútvegsmálin og setti upp stóru nefndina, þá hvolfdu sér inn í hana áhrifamiklir útgerðarmenn til þess að snúa ofan af þeim sem vildu fara aðrar leiðir en þá að hafa kerfið óbreytt. Og þeir kiknuðu og gengu til liðs við þá sem vildu hafa þetta svona áfram í Sjálfstfl. og lufsuðust til þess að samþykkja þetta. Sá eini sem stóð eitthvað í lappirnar var formaður þingflokksins en hann réð auðvitað engu og er svolítið eins og hrópandinn í eyðimörkinni. En hvort einhvern langaði til að styðja hann er svo önnur saga, hæstv. forseti.