Verndun íslensku mjólkurkýrinnar

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 18:33:51 (3752)

2003-02-11 18:33:51# 128. lþ. 76.21 fundur 193. mál: #A verndun íslensku mjólkurkýrinnar# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[18:33]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Sem einn af meðflutningsmönnum að þessari þáltill. vil ég fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum. Eins og skýrt hefur verið ágætlega frá gengur tillagan út á það að koma á fót sérstakri áætlun um vernd íslensku mjólkurkýrinnar.

Þetta eru vissulega orð í tíma töluð því á undanförnum árum hafa verið gerðar tilraunir til að flytja inn fósturvísa úr norskum kúm til að setja í íslenskar kýr og rækta þar með nýjan kúastofn út frá norsku kúnum. Ég verð að segja að ég hef átt mjög erfitt með að meðtaka þau rök sem hafa verið færð fyrir þessu. Ýmsir erfiðleikar eru í sambandi við það að ala hér á landi norskar kýr miðað við það kúakyn sem við höfum verið með. Þær eru miklu stærri og þyngri og það mundi valda erfiðleikum vegna sumarbeitar og er þá aðeins fátt eitt talið. En þó er náttúrlega einkum og sér í lagi það að þarna erum við að taka mikla áhættu á að flytja sjúkdóma inn í landið því sjúkdómar geta flust með fósturvísum, það er vísindalega sannað, og ýmsir sjúkdómar sem við óttumst mest geta leynst í viðkomandi dýrakyni lengi áður en þeir brjótast út. Þannig gætum við verið að flytja inn fósturvísa sem væru með kúariðusmit t.d. og það eru reyndar margir aðrir alvarlegir sjúkdómar sem gætu borist á þennan máta.

Við höfum notið einangrunar landsins hingað til, þannig að okkar ágæta íslenska mjólkurkúakyn er mjög einstætt í veröldinni. Það hafa t.d. verið leiddar mjög sterkar líkur að því við rannsóknir í Háskóla Íslands að íslensk mjólk, mjólk úr íslenskum kúm myndi vernd gegn sykursýki. Og ef tekst í raun og veru að sanna þetta vísindalega, þá ættu að opnast ómældir markaðir fyrir íslenska mjólk, t.d. til að framleiða þurrmjólkurduft handa ungbörnum. Ég er satt að segja svolítið hissa á því að slík framleiðsla skuli ekki þegar vera hafin, svo sterkar eru þessar vísbendingar sem hafa komið fram.

Ég held að við værum að taka mikla áhættu og eyðileggja fyrir okkur mikla möguleika á markaðssókn með íslenska mjólk í framtíðinni ef við flyttum inn þessa fósturvísa, þó að vísu hafi verið sagt að þeir yrðu aðeins hafðir á ákveðnum búum og einangruðum stöðum o.s.frv., þá er það bara svo á Íslandi að mjög erfitt hefur reynst að einangra pestir og þær pestir sem hafa flust hingað hafa breiðst út með ógnarhraða. Það er gott að minnast hrossasóttarinnar sem kom hér upp fyrir nokkrum árum og reyndist ógerningur að stöðva, hún var bókstaflega út um allt.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um tillöguna en ég vil lýsa stuðningi mínum við þetta mál og vona að við náum því á þessu þingi að samþykkja þessa ágætu þáltill. svo því verði komið í verk sem hér er stungið upp á, að koma á fót sérstakri áætlun um vernd íslensku mjólkurkýrinnar.