Niðurstöður starfshóps um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 13:38:30 (3759)

2003-02-12 13:38:30# 128. lþ. 77.1 fundur 531. mál: #A niðurstöður starfshóps um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi hreyfir hér mjög mikilvægu máli og gott að fá þær upplýsingar frá hæstv. fjmrh. að undirbúningur sé hafinn og að þetta starf sé að fara af stað. Mig fýsir þó að vita hvort hæstv. ráðherra telji einhverja fyrirstöðu hér heima gegn því að geta tekið þátt í þessu með sama hætti og löndin í kringum okkur, aðallega vegna þess að við ræddum fyrir ekki mjög löngu um launamun kynjanna og kyngreindar upplýsingar. Það kemur í ljós að þær vantar víða á Íslandi, þ.e. að undirstöðuupplýsingar sem nýtast mjög vel í svona verkefni séu kyngreindar. Það væri gott að fá svör við því hvort þar sé einhver fyrirstaða hvað þetta verkefni varðar. Að auki þótti mér verra að heyra að hæstv. ráðherra sagði að ekki væri alveg ljóst hversu mikið þetta mundi kosta eða hvernig ætti að fjármagna verkefnið. Það væri mjög gott að fá skýr svör um það.