Niðurstöður starfshóps um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 13:39:43 (3760)

2003-02-12 13:39:43# 128. lþ. 77.1 fundur 531. mál: #A niðurstöður starfshóps um samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 128. lþ.

[13:39]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin og lýsi því yfir að ég fagna því að þetta verkefni skuli vera komið af stað. Ég segi alveg satt að ég vænti þess að niðurstöður þess eða það sem út úr því kemur geti orðið okkur mjög dýrmætt veganesti inn í áframhaldandi vinnu. Ég held að fyrir okkur liggi að skoða fjárlögin okkar, ekki einungis þetta afmarkaða svið, almannatryggingamálin, heldur öll fjárlögin eins og þau leggja sig með kynjagleraugunum. Ég held að það sé orðið mjög mikilvægt að við gerum það af alvöru og þess vegna fagna ég því að hæstv. ráðherra skuli sjá fyrir sér að rannsóknaraðili vinni með stýrihópnum því að ég tel mjög mikilvægt að vinna sem fer fram á þessu sviði og á vegum hins opinbera lúti þeim lögmálum sem vísindamenn í þessari grein og þessum geira, mundu setja. Ég fagna því að það skuli vera horft til þess í þessu íslenska verkefni.

Einnig hefði verið gaman, herra forseti, að heyra aðeins á hvern hátt íslenska verkefnið er ólíkt þeim hluta verkefnisins sem verður unninn áfram annars staðar á Norðurlöndunum og satt að segja væri gaman að sjá líka greiningu á því hversu langt Norðurlöndin eru komin fram úr okkur á þessu sviði, hvort það hafi komið fram í vinnu starfshópsins að Íslendingar séu að einhverju leyti eftirbátar eða á hvern hátt staða okkar sé önnur en hinna Norðurlandanna.

Það væri líka spennandi að heyra, herra forseti, hvort jafnvel kæmi til greina að þessi norræna upphafsráðstefna, þessi ráðstefna sem hæstv. ráðherra segir að eigi að marka upphaf verkefnisins, verði haldin á Íslandi. Ég verð að segja að það væri fengur að því að fá ráðstefnu af því tagi hingað til lands þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til að sækjast eftir því. Ég tel að það gæti orðið okkur til framdráttar og það gæti orðið verkefninu til framdráttar á Íslandi og styrkt stoðir þess sem ég tel nauðsynlegt að verði gert.