2003-02-12 14:12:56# 128. lþ. 78.16 fundur 155. mál: #A niðurfelling lendingargjalda fyrir millilandaflug á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllum# þál., Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[14:12]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 155 um niðurfellingu lendingargjalda fyrir reglubundið millilandaflug á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllum.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Jón Bjarnason og Þuríður Backman úr Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Tillagan hljóðar svona, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að gera áætlun um niðurfellingu lendingargjalda á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli til næstu fimm ára. Lendingargjöldin verði felld niður hjá þeim flugfélögum sem hyggja á reglubundið flug frá þessum flugvöllum til útlanda.``

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

,,Á Íslandi eru fjórir alþjóðlegir flugvellir. Þeirra langstærstur er Keflavíkurflugvöllur, þá Reykjavíkurflugvöllur síðan Akureyrarflugvöllur og loks Egilsstaðaflugvöllur. Ferðaþjónustuaðilar eru sammála um að mjög mikil hagsbót væri að því fyrir ferðaþjónustuna, sérstaklega á landsbyggðinni, að flugvellirnir á Akureyri og á Egilsstöðum nýttust betur í þágu hennar en nú er. Sama má segja um möguleika eða áform manna um inn- og útflutning frá þessum flugvöllum.

Gerðar hafa verið tilraunir til þess að auka samgöngur við útlönd frá þessum flugvöllum í allnokkur ár. Til dæmis stóð Akureyrarbær ásamt hagsmunaaðilum að samningi við flugfélag sem flaug reglubundið milli Zürich í Sviss og Akureyrar. Sú tilraun stóð í nokkur ár en er nú aflögð. Það flug var styrkt beint af Akureyrarbæ og óbeint af öðrum aðilum í ferðaþjónustu, t.d. með auglýsingum.

Nú um skeið hefur Egilsstaðabær staðið fyrir svipuðum samningi þar sem flogið hefur verið á milli Egilsstaða og Düsseldorf og auk þess eru áform um að fljúga á milli Egilsstaða og München næsta sumar. Í báðum þessum tilvikum hefur verið um sumarflug að ræða.

Nokkrir aðilar hafa átt í viðræðum við erlend flugfélög um að auka þjónustuna við þessa staði. Þar má m.a. nefna Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar sem staðið hefur í viðræðum við flugfélag erlendis um að hefja beint flug til Akureyrar. Það er mat allra þeirra sem að þessu máli koma að einhvers konar stuðningur þurfi að koma til eins og dæmin frá fyrrgreindum stöðum sýna svo að þessi kostur á notkun vallanna sé fýsilegur.

Það er mat flutningsmanna að vænlegt sé að gera tilraun til næstu fimm ára með niðurfellingu lendingargjalda á þessum tveimur flugvöllum þannig að öllum þeim flugfélögum sem hafa áhuga sé með því móti gert fært að lækka kostnað vegna flugsins á jafnréttisgrundvelli.

Að því er best verður séð væri hægt að líta á niðurfellingu lendingargjaldanna sem byggðastyrk og væri hún því í fullu samræmi við þær reglur sem settar eru varðandi byggðastyrki á Evrópska efnahagssvæðinu.``

Virðulegi forseti. Ég hef nú lesið greinargerðina með tillögunni en vil að endingu bæta því við að lendingargjöld, t.d. í norðanverðu Skotlandi, norðan við Aberdeen, eru engin á flugvöllum þar. Það er skilgreint sem strjálbýli og Bretar hafa komist upp með að fella niður öll lendingargjöld sem lið í byggðaáætlun. Þetta er lína sem dregin er norðan við Aberdeen og á þessu landsvæði í Norður-Skotlandi búa um 400 þúsund manns eða nokkru fleiri en Íslendingar allir. Ef vilji er fyrir hendi er því ekkert vafamál að þessir tveir flugvellir geta verið skilgreindir af Íslendingum sem strjálbýlisflugvellir og má segja að akkur sé í því fyrir ferðaþjónustuna og fyrir landið í heild sinni að notkun þeirra verði aukin og þar verði aukin áhersla á að fljúga með ferðamenn til landsins. Ferðamennskan er nú um stundir okkar önnur stærsta atvinnugrein. Við verðum að hlúa að henni. Enda þótt flogið sé að einhverju leyti til útlanda og þá til Færeyja frá Reykjavíkurflugvelli er það samdóma álit ferðaþjónustuaðila að möguleikinn á því að komast til útlanda frá fleiri en einum flugvelli mundi styrkja ferðaþjónustuna verulega, þ.e. ef ferðamenn ættu þess kost að lenda á einum stað á landinu og þá hér suðvestanlands og fara heim á leið frá flugvöllum norðan lands eða austan lands og dreifa þar með álagi ferðaþjónustunnar vítt og breitt um landið. Það gerði mönnum þæglegra að ferðast hér.

Þetta er ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að við leggjum til þessa þáltill. og vonumst til þess að hún verði tekin til vinsamlegrar meðferðar. Þetta er tillaga til samgrh. og ég geri ráð fyrir því að best sé að henni verði vísað til hv. samgn.