Meðferðardeild við fangelsi fyrir sakhæfa geðsjúka afbrotamenn

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 14:36:12 (3773)

2003-02-12 14:36:12# 128. lþ. 78.17 fundur 156. mál: #A meðferðardeild við fangelsi fyrir sakhæfa geðsjúka afbrotamenn# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[14:36]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög mikilvægu máli þar sem um er að ræða tillögu um að byggð verði upp meðferðardeild við fangelsi fyrir sakhæfa geðsjúka afbrotamenn. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason hefur gert grein fyrir tillögunni og farið yfir meginröksemdir fyrir henni.

Ljóst er að þarna er ákveðið grátt svæði á ferðinni sem þarf að brúa á einhvern hátt, þ.e. ef við lítum til geðsjúkra sakhæfra afbrotamanna annars vegar og geðsjúkra ósakhæfra afbrotamanna hins vegar. Eins og við vitum er rekið meðferðarheimili á Sogni fyrir ósakhæfa geðsjúka afbrotamenn þar sem veitt er mjög markviss og góð þjónusta fyrir viðkomandi einstaklinga. Þess ber að geta að sú þjónusta hefur skilað mjög góðum árangri þar sem tekist hefur að útskrifa nokkra einstaklinga sem þar hafa dvalist og talið er að hafi náð bata. Sú starfsemi hefur því sannað að með markvissri þjónustu er hægt að veita viðkomandi einstaklingum þá þjónustu og þann bata sem þeir þurfa á að halda.

Í fangelsinu á Litla-Hrauni er á hverjum tíma einhver tiltekinn fjöldi afbrotamanna sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar en eiga í raun við geðsjúkdóma að stríða að einhverju leyti. Í fangelsinu á Litla-Hrauni er ekki aðstaða til að veita þeim þá þjónustu sem þeir þurfa og ljóst að fangelsisvist í venjulegu fangelsi er ekki heppilegur vettvangur fyrir þá einstaklinga sem eiga við slíkar aðstæður að glíma. Þess vegna er mjög mikilvægt að hið fyrsta verði ráðist í að veita slíkum einstaklingum þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda.

Á Sogni hafa þau rými sem þar eru ætluð fyrir ósakhæfa afbrotamenn ekki verið fullnýtt síðustu tvö, þrjú árin. Sogn hefur því vistað sakhæfa einstaklinga sem hafa verið dæmdir til fangelsisvistar þar sem þeir hafa fengið geðþjónustu og fengið þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda. Reynslan af því er mjög góð eftir því sem ég best veit. Það er kannski gleggsta dæmið um hvað hægt er að gera í þessum málum og hvað nauðsynlegt er að gera.

Hins vegar er vandinn sá hjá Sogni að stoð í lögum um starfsemi Sogns er jú sú að þar skuli vista ósakhæfa afbrotamenn. Þess vegna hefur verið spurning um réttarstöðuna á alla kanta getum við sagt varðandi vistun sakhæfra einstaklinga á þeirri stofnun. Og sem fyrrverandi framkvæmdastjóri Sogns og Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi sem veitir þessa þjónustu einnig, þá veit ég að þetta hefur verið ákveðið grátt svæði sem ekki hefur verið augljóst hvernig ætti að meðhöndla.

En eins og fram kom hjá flutningsmanni tillögunnar hefur verið mikið samstarf milli starfsfólks Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi, starfsmanna á Sogni, fangelsisins á Litla-Hrauni og Fangelsismálastofnunar um þessi mál og þessir aðilar hafa fjallað um það með hvaða hætti heppilegt væri að veita þá þjónustu sem hér um ræðir. Ég tel að þar liggi töluverð reynsla og þekking vegna þeirrar vinnu undanfarin ár sem beri að nýta.

Það er skoðun mín, herra forseti, að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða og það sé í raun ekki verjandi að það ástand sem nú er vari öllu lengur. Þess vegna tek ég undir þá tillögu sem hér liggur fyrir, að ráðist verði í að leysa þessi mál og það er skoðun mín miðað við þá reynslu sem ég hef af þessum málum og þekkingu, að heppilegast væri að þessi þjónusta væri í sem nánustum tengslum við Sogn þar sem fagþekkingin og það allt saman er fyrir hendi. Ég mundi því leggja það til í þessari umræðu að sú þjónusta verði byggð upp á Sogni.

Eins og ég sagði áðan tel ég skynsamlegt að þessi mál verði leidd til lykta í samstarfi við þá aðila sem ég hef talið upp sem sinnt hafa þessum málum. Dómsmrn. og heilbrrn. þurfa að sjálfsögðu að koma að því og leysa þau mál, það er mjög brýnt og ég tel að mjög mikilvægt sé að leysa þau sem allra fyrst, vegna þess að eins og ég sagði fyrr í máli mínu er það auðvitað ekki verjandi að einstaklingar sem dæmdir eru til fangavistar og eiga við geðsjúkdóma að glíma, séu vistaðir eins og hverjir aðrir fangar í venjulegu fangelsi. Það er því miður ekki bjóðandi upp á það. Og þetta ástand getur ekki varað lengur, ég held að við getum öll verið sammála um það.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið. Ég fagna þessari tillögu, ég tel hana tímabæra og hvet eindregið til þess að stjórnvöld láti þetta mál til sín taka. Raunar veit ég að töluvert hefur verið fjallað um það í viðkomandi ráðuneytum, en það er orðið mjög brýnt að leysa þessi mál og koma þeim í þann farveg sem vera ber, fyrst og fremst auðvitað með hagsmuni viðkomandi einstaklinga í huga, þannig að þeir fái bót meina sinna og þá aðstoð sem þeir þurfa sannarlega á að halda.