Meðferðardeild við fangelsi fyrir sakhæfa geðsjúka afbrotamenn

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 14:42:20 (3774)

2003-02-12 14:42:20# 128. lþ. 78.17 fundur 156. mál: #A meðferðardeild við fangelsi fyrir sakhæfa geðsjúka afbrotamenn# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[14:42]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að taka undir þáltill. og hvet til þess að hún fái góða afgreiðslu á þinginu. Ég held að um tillöguna hefði örugglega náðst þverpólitísk samstaða í flutningi og því trúi ég því að hún nái þverpólitískri samstöðu með afgreiðslu ef hún fær eðlilegan framgang á þinginu.

Málið er, herra forseti, að þegar menn eru dæmdir til fangelsisvistar eru þeir dæmdir fyrir einhver afbrot, einhverja glæpi til refsingar. Fangelsisvist er refsing, en tilgangur afplánunar er einnig að bæta menn en ekki að brjóta þá niður og inn í afplánunina vantar að mínu mati þennan uppbyggilega þátt í meira mæli en nú er fyrir alla fanga.

Hvað varðar sakhæfa geðsjúka afbrotamenn er staða þeirra mjög alvarleg því þeir eiga í raun og veru hvergi heima. Þeir eiga ekki heima inni á Litla-Hrauni og þeir eiga ekki heima að Sogni sem er fyrir ósakhæfa afbrotamenn. Geðheilsa þeirra er oft það léleg að afplánunin verður hreinlega til þess að brjóta þá endanlega niður en það er ekki tilgangurinn með afplánuninni.

Því styð ég það sem hér hefur komið fram að halda áfram að byggja upp á Sogni. Sú stofnun hefur sérfræðiþekkingu á meðferð ósakhæfra afbrotamanna, þekkingu sem nýtist vel fyrir sakhæfa og geðsjúka afbrotamenn, og hafa Sogn bæði fyrir ósakhæfa og sakhæfa geðsjúka afbrotamenn. Þar er þekkingin til staðar og mér finnst í rauninni alveg ástæðulaust að byggja upp aðra deild eða aðra þjónustu einhvers staðar annars staðar. Við erum með Litla-Hraun sem ríkisfangelsi og ég tel að einhver bið verði á því að við byggjum upp ríkisfangelsi á öðrum stað. Þetta tel ég að sé næsta skref í þessu máli.

[14:45]

Fram að þeim tíma þarf að aflétta réttaróvissu varðandi innlagnir sakhæfra, geðsjúkra afbrotamanna á Sogn. Réttarstaða þeirra má ekki vera í neinni óvissu. Ef það eru tímabil þar sem plássin á Sogni eru ekki öll nýtt en þörf á þjónustu fyrir sakhæfa og geðveika afbrotamenn sem vistaðir eru á Litla-Hrauni tel ég að við eigum að nýta þau pláss en það er eingöngu neyðarúrræði.

En það er ekki nóg að hugsa um tímann sem þessir einstaklingar eru í afplánun. Það þarf ekki síður að hugsa um tímann eftir að afplánuninni lýkur og menn útskrifast. Þá vaknar spurning um heimili, hvort það er til staðar. Því miður er það ekki sjálfgefið vegna þess að í mörgum tilfellum eru menn búnir að brjóta svo allar brýr að baki sér að þeirra bíður ekki lengur fjölskylda. Húsnæði er ekki alltaf til staðar. Atvinnu getur verið erfitt að fá og þá líður oft á tíðum ekki langur tími þar til allt fer í sama horfið aftur.

Eftirmeðferðin, að það sé tryggt umhverfi, húsnæði, atvinna og faglegur stuðningur, er mjög mikilvæg. Eins þarf að horfa til lengri tíma. Til þess að maður geti sagt að sakhæfur geðsjúklingur geti bjargað sér úti í þjóðfélaginu og þurfi ekki lengur stuðning þá þarf hann til lengri tíma faglegan stuðning. Það þarf líka að horfa á heildarmyndina þegar talað er um að byggja upp hvað afplánunina varðar, að fylgja því líka eftir með eftirmeðferðinni.