Meðferðardeild við fangelsi fyrir sakhæfa geðsjúka afbrotamenn

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 14:47:46 (3775)

2003-02-12 14:47:46# 128. lþ. 78.17 fundur 156. mál: #A meðferðardeild við fangelsi fyrir sakhæfa geðsjúka afbrotamenn# þál., Flm. ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[14:47]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Stefánssyni, 2. þm. Vesturl., og hv. 5. þm. Austurl., Þuríði Backman, fyrir að taka undir þessa tillögu. Við erum afar samstiga í þessu máli og það er vel, enda held ég að flestir séu það. Fólk gerir sér almennt grein fyrir því að þetta er mjög brýnt mál. Það fylgja mörg vandamál þessum hópi sem er sem betur fer fámennur hér á landi en þó svo stór að nauðsynlegt er að sinna honum og það fljótt og vel.

Verkefnið er afar brýnt. Mjög margir hafa unnið gott verk í þessum efnum. Þar má nefna t.d. Geðhjálp, Samhjálp hvítasunnumanna og marga fleiri sem reynt hafa að aðstoða þessa hópa. En það er mjög brýnt að ríkið komi að þessu máli og á því verði tekið svo fljótt sem mögulegt er, enda er gert ráð fyrir því í þessari þáltill. að lausn fáist á málinu fyrir 1. maí. Þetta mál lagði ég fyrir þingið í upphafi þings en það tekur alltaf sinn tíma að ná málum til umræðu eins og gengur og gerist. En hér er auðvitað um afar brýnt mál að ræða.

Ég gleðst yfir því að í þessari umræðu kemur fram að við erum sammála um að Sogn sé sá staður sem hentar hvað best fyrir þessa starfsemi. Við erum líka sammála um að á svæðinu er mjög sérhæft starfsfólk sem vant er að fást við vandamál af þessu tagi. Þarna er um góða samtengingu að ræða. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að afbrotamenn fái uppbyggilega meðferð á meðan á afplánuninni stendur. Það er í raun og veru grundvallaratriði. Ég hvet dómsmrh. í samvinnu við heilbrrh. og þess vegna félmrh. til að reyna að koma þessu máli í höfn sem allra fyrst þannig að við getum tekið á málinu.

Eins og fram kom í fyrri ræðu minni er um nokkuð víðtæk samstaða á svæðinu. Bæjarstjórn Árborgar hefur ályktað í þessum efnum og okkur er í raun og veru ekkert að vanbúnaði að drífa þetta mál áfram.

Að lokinni þessari umræðu hvet ég til að tillögunni verði vísað til allshn., sem ég treysti að afgreiði þetta mál fljótt og vel.