Uppbygging fiskeldisfyrirtækja vegna eldis kaldsjávarfiska

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 14:57:16 (3777)

2003-02-12 14:57:16# 128. lþ. 78.18 fundur 167. mál: #A uppbygging fiskeldisfyrirtækja vegna eldis kaldsjávarfiska# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil segja nokkur orð varðandi þessa till. til þál. um stofnframlög til uppbyggingar fiskeldisfyrirtækja vegnis eldis kaldsjávarfiska. Ég tel að hér sé um merka og góða þáltill. að ræða og hvet til afgreiðslu hennar. Það leikur enginn vafi á að við erum að missa af miklum tekjum inn í þjóðarbúið ef við ætlum ekki að nýta það að þekking til áframeldis er til staðar.

Núverandi ríkisstjórn hefur unnið að því hörðum höndum að koma öllum atvinnuvegi inn í samkeppnisumhverfi. Það er samkeppnin og markaðurinn sem á að ráða. Það má segja að það sé í lagi, svo langt sem það nær, ef menn standa jafnfætis. Þetta á bæði við markaðinn hér innan lands, þéttbýlið gagnvart dreifbýlinu og Ísland gagnvart öðrum löndum, öðrum mörkuðum. Sérstaklega þarf að huga að mörkuðum sem við erum að keppa á og keppa við. Ég tel því brýnt að horfa til, eins og hér er gert, áframeldis á lúðuseiðunum í dag og rekstrarumhverfis þessarar atvinnugreinar á samkeppnismörkuðum. Ef fyrirtæki í áframeldi fá stofnstyrki til framleiðslunnar þá verðum við auðvitað að horfa til þess að veita samsvarandi stofnstyrki hér heima til að missa þetta ekki allt úr höndunum á okkur. Ef virðisauki verður við áframeldið eigum við auðvitað að halda honum hér heima.

Ég tel að þetta geti orðið arðvænleg atvinnugrein ef vel er að staðið, fyrir marga um allt land. Seiðin er hægt að flytja á milli staða og aðstaðan til áframeldisins er víða góð. Mikilvægt væri að hafa þennan möguleika og stuðning til að koma fyrirtækjunum á laggirnar.

Herra forseti. Mig langar að taka fram að þetta er ein af þeim atvinnugreinum sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði gætum nefnt sem ,,eitthvað annað`` rétt eins og sú tillaga sem var rædd áðan um nýtingu innlends trjáviðar. Þar er eins og sagt er ,,eitthvað annað``. Við nefnum ekki ákveðin fyrirtæki vegna þess að það er ríkisins að sjá til að rekstrarumhverfi fyrirtækja og atvinnulífsins sé með þeim hætti að fólk geti komið á legg nýjum fyrirtækjum eða eflt þá starfsemi sem fyrir er eða nýtt tækifæri eins og þetta. Það er eitthvað annað en stóriðja sem hér hefur verið allsráðandi. Það er heilbrigt og eðlilegt atvinnulíf sem mun örugglega styrkja okkur til framtíðar.