Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 15:01:34 (3778)

2003-02-12 15:01:34# 128. lþ. 78.19 fundur 191. mál: #A samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs# þál., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[15:01]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um bætta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Tillaga sama efnis, lítillega breytt greinargerð, var flutt á 126. og svo aftur á 127. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Það er þó ástæða til að geta þess, herra forseti, að við vinnslu tillögunnar eða skoðun eftir að henni hafði verið vísað til nefndar var á það bent að í þeirri byggðaáætlun sem þá var til vinnslu af hálfu ríkisstjórnarinnar væru ákvæði sem mundu að sínu leyti uppfylla, a.m.k. að einhverjum hluta, það sem hér er verið að tala um, þ.e. að búinn verði til öflugur stuðningssjóður, sambærilegur þeim sem Noregur hefur, að fyrirmynd Evrópusambandsins. Það varð hins vegar ekki. Það var með þá tillögu, eins og ýmsar fleiri sem menn höfðu ýtt inn á borðið varðandi gerð byggðaáætlunar, að ekki náðist samkomulag um hana og í stað þess að þeir sjóðir sem einhverjir höfðu séð fyrir sér að hægt yrði að sameina og búa þá til úr einn öflugan kemur máttlaust orðalag um samvinnu. Það er, herra forseti, full ástæða til þess að halda þessu máli vakandi enda er mikilvægt að við sköpum atvinnulífi á Íslandi sambærilegar aðstæður og það atvinnulíf hefur sem það keppir við í nágrannalöndum og annars staðar í Evrópu.

Sú þáltill. sem var rædd hér á undan laut að sumu leyti að sama máli en varðaði þó einkum eina atvinnugrein. Það sem við, þingmenn Samfylkingarinnar, erum að tala um með þessari þáltill. er að ríkisstjórninni verði falið að láta kanna möguleika á stofnun uppbyggingarsjóða sambærilega þeim sem Evrópusambandsríkin og Noregur hafa til að efla atvinnu á tilteknum svæðum, til að endurskipuleggja atvinnulífið og til að styrkja samkeppnisstöðu þess. Okkur fannst, herra forseti, ástæða til þess að menn gengju skarplega til verka, skoðuðu þessa hluti og skiluðu skýrslu um þá fyrir haustið eða snemma í haust þannig að hægt yrði að takast á við málið á haustdögum.

Það liggur fyrir að núverandi stjórnvöld hafa ekki fyrirætlanir um að Ísland gangi í Evrópusambandið, ekki einu sinni að á það væri látið reyna hverju væri hægt að ná fram í viðræðum. En það stendur þó upp á stjórnvöld að þau búi íslensku atvinnulífi sambærileg kjör þeim sem atvinnulífinu eru búin annars staðar í Evrópu. Hér hafa menn aðallega verið uppteknir af skattaumhverfi atvinnulífsins, og breytingar á því eins og þær sem síðast voru gerðar, býsna stórtækar, gjarnan útskýrðar eða réttlættar með samkeppnisstöðu gagnvart öðrum löndum.

Menn geta velt því fyrir sér fyrir hvern þessar breytingar voru gerðar síðast. Það er a.m.k. ljóst að þær voru ekki gerðar fyrir fyrirtæki sem eru að reyna að verða til, ekki fyrir litlu fyrirtækin, ekki fyrir mannfreku fyrirtækin, ekki fyrir þau fyrirtæki sem eru í nýsköpun. Herra forseti. Þær voru aðallega gerðar, að því er manni sýnist, fyrir stóru, grónu fyrirtækin. Nú er ég ekki á móti stórum og grónum fyrirtækjum en lítið verður um okkur ef ekki fá fleiri að skjóta rótum.

Og það eru líka fleiri þættir sem hafa áhrif á samkeppnisstöðuna, einkum ef við viljum skjóta fleiri rótum undir atvinnulífið og ef við viljum ná nýjum atvinnufyrirtækjum og tæknikunnáttu inn í landið. Þessi mál hafa nýverið komist í sviðsljósið vegna þeirra samninga sem Alcoa hefur gert við íslensk stjórnvöld um skattalega meðferð eftir að það fyrirtæki hefur hér starfsemi undir heitinu Fjarðaál. Það hefur líka orðið til þess að þeir samningar sem önnur stóriðjufyrirtæki hafa gert hafa komist í sviðsljós. Menn hafa farið í samanburð og nú síðast heyrum við að eigendur eða forsvarsmenn álversins í Straumsvík vildu gjarnan sjá sambærilegan samning fyrir sitt fyrirtæki hvað varðar skatta og liggur í samningi við Alcoa.

Herra forseti. Þeir sem hafa fjallað um þennan samning eins og hann birtist í því frv. sem Alþingi er að fjalla um eru, held ég, flestir sammála um að e.t.v. birtist þar nákvæmlega það sem íslenskt atvinnulíf þarfnast, ekki bara eitt stóriðjufyrirtæki eða þótt þau væru þrjú, heldur vildu auðvitað öll önnur íslensk atvinnufyrirtæki njóta þess að stimpilgjald væri ekki nema 0,15%, fasteignagjöld ekki nema 1% o.s.frv. Við í Samfylkingunni höfum reyndar verið með tillögu hér um það að stimpilgjöld yrðu lækkuð í áföngum og afnumin. Fyrir henni var mælt hér fyrir nokkrum dögum, líklega í þriðja skipti. Við höfum líka verið með tillögur um það að menn skoðuðu þetta umhverfi úr fleiri áttum. Þær skattatillögur sem ríkisstjórnin lagði fram í fyrra eins og ég rakti hér áðan tóku ekki tillit til þeirra litlu og mannfreku fyrirtækja sem eru að verða til eða reyndu að verða til meðan betur viðraði í íslensku efnahagslífi.

En, herra forseti, ríkisstjórnin hefur einblínt á stóru, gömlu fyrirtækin og einblínir nú helst á stóriðjufyrirtæki.

Eins og fram kemur hér í greinargerð er Evrópusambandið með öfluga uppbyggingarsjóði sem það notar til að ná markmiðum sínum, bæði í byggðamálum og í því að endurskipuleggja atvinnulífið. Norðmenn hafa einnig, á þeim grundvelli að þeir ákváðu að hafna aðild að ESB, síðast 1994, byggt upp öflugan sjóð sem veitir stofnstyrki við uppbyggingu atvinnulífsins. Fyrirmynd sjóðs þeirra er evrópski byggðaþróunarsjóðurinn. Við skoðun á uppbyggingarsjóðum væri því rétt að líta einnig til þess hvernig uppbygging og framkvæmd er í Noregi. Það hafa orðið miklar breytingar á atvinnuháttum á undanförnum árum og enn eru þær breytingar að eiga sér stað. Hér á Íslandi þyrftum við sannarlega að hafa annars konar umhverfi fyrir atvinnureksturinn en nú er og það er mikilvægt að stjórnvöld geti mótað og fylgt eftir skilvirkri stefnu um það hvernig skuli brugðist við á hverjum tíma, ekki síst að þau geti brugðist við með mismunandi hætti eftir því hvar á landinu er talið eðlilegt að grípa inn í.

Iðnrn. hefur skilgreint landið með tilliti til möguleika hvers svæðis og það er mikilvægt, herra forseti, vegna þess að pakkalausnir eins og fimm menningarhús eða milljarður hér og milljarður þar í framkvæmdir eru kannski ekki beinlínis það skilvirkasta sem við getum gert gagnvart atvinnulífinu á hverjum tíma. Ég hélt satt að segja að tími hinna miðstýrðu pakkalausna væri liðinn en það er greinilega ekki, það eru ekki allir búnir að átta sig á því að við erum komin inn í 21. öldina.

Við erum komin með byggðakort fyrir Ísland sem tók gildi í ágúst 2001 og á að gilda til 2006. Slíkt kort er grundvöllur byggðaaðgerða, bæði við núverandi aðstæður og einnig ef það yrði niðurstaðan að stofna til uppbyggingarsjóða á Íslandi. Í því ljósi, herra forseti, hygg ég að sá stuðningur sem íslenska ríkið er með við Alcoa standist. Það er jú verið að staðsetja þessa verksmiðju á þeim stað á byggðakortinu þar sem má vera með stuðning af ýmsu tagi. Við viljum hins vegar að sá stuðningur sem veittur er hverju sinni sé gegnsær og byggi á jafnræðisreglu. Stuðningur sem er handahófskenndur, jafnvel pólitískur, hefur ekki föst viðmið, engar reglur og ekkert gegnsæi er okkur ekki að skapi.

Við teljum að allt það sem lýtur að atvinnulífinu, hvort sem það eru álögur eða stuðningur, verði að byggja á jafnræði þeirra aðila sem koma við sögu, að það sé alveg ljóst og yfir allan vafa hafið að það sama eigi við um alla sem eins er ástatt um.

Herra forseti. Á Íslandi eru stór og strjálbýl svæði með einhæft atvinnulíf. Ákvörðun ESA um þetta byggðakort sem ég hef hér getið um byggist á því mannfjöldaviðmiði á þessum svæðum sem styrkja má. Það eru dæmi um það, herra forseti, að fyrirtæki sem von var um að stofnsett yrðu hérlendis hafi endað í öðru landi sem býður stofnstyrki í samræmi við þær leikreglur sem við verðum að stætta okkur við að aðrar þjóðir viðhafi, en höfum ekki tekið upp sjálf.

Við, flm. þessarar tillögu, teljum rétt að stofnun uppbyggingarsjóða og úthlutun stofnstyrkja verði könnuð með tilliti til þess að samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs verði sem best. Við vitum að Evrópusambandsríkin hafa tekist á við endurnýjun atvinnulífsins á svæðum sem dregist hafa aftur úr í tækniþróun með tilstyrk sjóða eins og þessara. Menn nefna gjarnan til sögunnar Írland og Skotland, og sannarlega horfa menn til þess hvernig muni verða unnið á þeim svæðum sem verst eru stödd í hinum nýju ríkjum sem væntanlega verða aðilar að Evrópusambandinu innan ekki svo langs tíma.

Herra forseti. Þetta mál snýst kannski fyrst og fremst um það að íslensk stjórnvöld séu meðvituð um það eða marki um það stefnu hvort og þá hvernig þau vilja hafa áhrif á byggðaþróun, hafa áhrif á atvinnuþróun. Það er alveg ljóst reyndar að það vilja þau í einhverjum tilfellum. Við sjáum það alltaf annað veifið. Ég hef nefnt Alcoa sem nýtt fyrirtæki sem stjórnvöld vilja, og beita því ákveðnum niðurgreiðslum til að fá inn í landið. Við verðum alltaf annað veifið vör við slíkar tilhneigingar, ýmist með beinum eða óbeinum hætti. Ekki er langt síðan hér var rætt um ríkisábyrgð fyrir eitt tiltekið fyrirtæki.

Herra forseti. Við viljum að það séu mótaðar reglur með meðvituðum hætti, reglur sem segja til um það hvað íslensk stjórnvöld eru tilbúin til að gera, reglur sem gilda fyrir alla sem eins er ástatt um, reglur sem eru hafnar yfir tortryggni og hafnar yfir það að mönnum verði fyrst fyrir að hugsa um pólitískar ívilnanir þegar þær eru framkvæmdar. Í okkar fámenna samfélagi er líklega mikilvægara en víðast annars staðar að reglur séu skýrar og gegnsæjar og þess vegna er slæmt að hið öndverða skuli vera staðreyndin. Það skapar hér endalausar deilur, ég segi ekki illdeilur, um hvert það skipti sem stjórnvöld með einhverjum hætti blanda sér í það sem er að gerast á vinnumarkaði, þ.e. þegar það beinist gegn einstökum fyrirtækjum, herra forseti.

Það má hins vegar segja að íslensk stjórnvöld skapa hinn almenna ramma hverju sinni og þar er auðvitað eitt látið yfir alla ganga sem eins er ástatt um og ekkert við því að segja þó að maður geti verið ósáttur við þann ramma almennt. En hér er sem sé verið að tala um það þegar stjórnvöld á hverjum tíma vilja beita áhrifum sínum til að efla atvinnu á tilteknum svæðum, vilja endurskipuleggja atvinnulífið og styrkja samkeppnisstöðu þess, að til séu skýrar reglur sem menn geta treyst að farið verði eftir og að jafnræði gildi gagnvart aðilum.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni umræðu um þetta mál verði því vísað til iðnn.