Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 15:15:33 (3779)

2003-02-12 15:15:33# 128. lþ. 78.19 fundur 191. mál: #A samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[15:15]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil segja nokkur orð um þessa þáltill. Ég held að hún sé góðra gjalda verð og að þetta sé vinna sem við þurfum að einhenda okkur í.

Ég vil þakka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir að nefna þau tvö mál sem ég var með hér fyrr í dag og voru í raun af sama meiði og ganga inn í þetta púkk. Það er alveg nauðsynlegt fyrir okkur að kortleggja það hvernig við ætlum að standa að þessum málum. Fregnir voru að berast af því nýverið að við séum að missa iðnaðarmöguleika t.d. norður í Eyjafirði, sem eru stóriðja í okkar huga, sem hafi farið til Svíþjóðar vegna stofnstyrkja þar sem það er klárt og skorið hvaða umhverfi fyrirtækin geta vænst að fá.

Ég held að það sé líka alveg hárrétt hjá hv. þm. að undanfarnar aðgerðir í efnahagsmálum og umhverfi fyrirtækja hafa byggst á því að laga til fyrir þá sem eru en síður fyrir þá sem vilja hasla sér völl og fara í eitthvað nýtt. Ég er sammála hv. þm. um það.

Við getum líka nefnt til sögunnar að kísilduftverksmiðja í tengslum við Kísiliðjuna við Mývatn endaði, að okkur er sagt, í Noregi vegna stofnstyrkja. Eins og kom fram hjá hv. þm. þá getum við auðvitað sett okkur sömu formúlur og Norðmenn hafa gert, sett okkur ákveðnar reglur og gera það mögulegt fyrir fyrirtæki að sækja inn í stofnsjóði og bæta þar með samkeppnisaðstöðu sína.

Ástæðan fyrir því að ég tók sérstaklega kaldsjávarfiskana og lúðueldið er einfaldlega sú staðreynd að við erum þar í hundruð þúsunda eldi og erum fremstir í heiminum hvað varðar þessa grein og er náttúrlega alveg sárgrætilegt að horfa upp á að ramminn skuli ekki vera þannig að hægt sé að staldra við og fara í þessa starfsemi hér þegar það er borðleggjandi að þeir geta farið í þessa atvinnugrein bæði í Kanada og Wales á grunni stofnstyrkja.

Ég vildi bara leggja þetta inn í umræðuna. Ég held að sama grunnhugsun liggi að baki öllum þessum þremur málum og ég held að mjög gott sé að hreyfa því hvernig við ætlum að haga þessum málum til framtíðar.