Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 15:36:05 (3782)

2003-02-12 15:36:05# 128. lþ. 78.94 fundur 428#B ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[15:36]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hefja þessa umræðu. Allur aðdragandi hennar er með þeim hætti sem hv. þm. lýsti. Mér þykir út af fyrir sig, þó að aðstæður hafi nokkuð breyst, ágætt að umræðan eigi sér stað á þeim nótum sem hv. þm. opnaði á.

Það hefur verið töluvert kallað eftir því af hálfu aðila vinnumarkaðar, og reyndar stjórnarandstöðu líka, að gripið yrði til slíkra aðgerða. Eins hafa þingmenn stjórnarflokkanna mjög hvatt til þess á þingflokksfundum með sínum forustumönnum að til slíkra aðgerða yrði gripið. Það hefur verið meginkeppikefli ríkisstjórnarinnar að tryggja að atvinnuástand væri sterkt hér á landi. Atvinnuleysi upp á 3,5%, sem er reyndar ekki hátt á alþjóðlega mælikvarða, er á íslenskan mælikvarða og í vitund og vilja þingmanna, hygg ég allra, hvar í flokki sem þeir standa, of mikið. Við viljum að allar vinnufúsar hendur geti fundið viðnám fyrir vilja sinn til þess að sjá sér og sínum borgið og stunda heilbrigða og eftirsóknarverða vinnu.

Það fljótlegasta sem hægt var að gera í þessum efnum var að veita fjármuni sem hægt var að leysa úr læðingi með sölu, bæði af eftirstöðvum í bönkum og eins Íslenskum aðalverktökum, til að efna til vegagerðar. Sú er reynsla manna að það er fljótvirkasta aðferðin í þessum efnum. Reyndar hittist nú þannig á að það voru ýmsir þingmenn, þar á meðal hv. málshefjandi, sem voru þeirrar skoðunar, eins og ég kannast við, að það væri skynsamlegt að leggja aukið fé til vegagerðar á tilteknum svæðum við þessar aðstæður. Við ímynduðum okkur að um þetta gæti náðst góð sátt í þinginu og í þjóðfélaginu. Og mér hefur sýnst að langflestir sem hafa tjáð sig um þetta opinberlega, kannski ekki nákvæmlega alveg allir, hafi tekið þessum ákvörðunum vel og með málefnalegum hætti.

Varðandi spurningu um uppsagnir hjá Vegagerð verð ég að viðurkenna að ég er ekki alveg tilbúinn til að svara því beint en segi þó að í mínum huga er algjörlega ljóst að Vegagerðin mun þurfa á öllu sínu að halda til að glíma við þessi verkefni. Þetta eru svo mikil verkefni á svo skömmum tíma að Vegagerðin mun þurfa á öllu sínu að halda. En ég er ekki að tala fyrir hönd Vegagerðarinnar varðandi einstakar uppsagnir, ég hef bara ekki hjá mér þau svör.

Varðandi fjáraukalögin eru fjmrh. og hans menn að huga að þeim þætti þessa dagana. Ég sé ekki annað en að menn mundu taka því vel að hraða því í gegnum þingið þó að skammt sé til loka þess vegna þess að um þetta efni er slík samstaða.

Við höfum ekki í sjálfu sér gert mat á því nákvæmlega, þó að til sé þumalfingursregla sem hv. þm. sjálfsagt þekkir, hvað framkvæmd við vegi af þessu tagi skapi mörg störf. Við teljum að svona mikil innspýting fari fram úr þeirri þumalfingursreglu vegna þess að hún sé það mikil og á það skömmum tíma að hún muni leiða til töluvert mikils af afleiddum störfum. Það er þá ekki hægt að binda störfin eingöngu við nákvæmlega þessi verkefni ein og sér. Við teljum einnig augljóst að þessi innspýting muni í raun ná til landsins alls. Það má auðvitað segja að meginþungi verkefnanna sé bundinn við landsbyggðina. Það er þó ekki hægt að segja, kannski því miður landsbyggðarinnar vegna, að öll störfin sem af þessu hljótast muni koma landsbyggðinni til góða, það þekkjum við bara. Ísland er orðið eitt atvinnusvæði og þegar svona mikið er tekið á mun það auðvitað skila sér um landið allt. En verkefnin sem eftir standa, því að þetta eru ekki nein atvinnubótaverkefni af gamla skólanum, þetta eru allt saman mikilvæg verkefni sem menn, m.a. í þessum sal, hafa lagt áherslu á, munu áfram standa og auðvitað duga þau best því fólki sem er næst þeim þegar til framtíðar er horft.

Ég tel að þetta hafi verið hinn skynsamlegi tími, eins og utanrrh. hefur bent á í samtölum, og það var með það í huga sem við tveir unnum þetta mál, aðallega sjálfir og með hjálp vegamálastjóra reyndar, til þess að nýta þá fjármuni sem við gátum leyst úr læðingi. Við höfum alltaf sagt að fjármunir sem við leysum úr læðingi vegna seldra eigna eigi að nota í þeim tilgangi nákvæmlega sem hér er gert. Og þetta var rétti tíminn til þess.