Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 15:50:10 (3787)

2003-02-12 15:50:10# 128. lþ. 78.94 fundur 428#B ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Viðbrögðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr slaka í efnahagslífinu hefur hvarvetna verið vel tekið. Það er helst að Samfylkingin setji á sig skeifu eins og barn í fýlukasti. En, hæstv. forseti, það sýnir á hve traustum efnahagslegum grunni við stöndum nú að ríkisstjórnin getur brugðist við á hárréttu augnabliki þegar á þarf að halda til að smyrja hjól atvinnulífsins, enda er það svo að Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa sérstaklega fagnað þessum ákvörðunum.

Það fé sem bundið er í hlutabréfum banka og verktakafyrirtækja er betur komið til að styrkja innviði þjóðfélagsins. Það að geta brugðist við núna er dýrmætt. Það er dýrmætt að geta ráðiðst í vegaframkvæmdir sem hafa sérstaklega byggðalega þýðingu. Það er óumdeilt að vegaframkvæmdir á Vestfjörðum og Norðausturlandi munu hafa mikla þýðingu. Ég nefni þessi svæði sérstaklega þar sem ekki verður séð fyrir endann á því hvernig ætti að koma þéttbýlisstöðum þar í gott vegasamband nema á löngum tíma. Nú er hægt að flýta því að Raufarhöfn, Þórshöfn og Vopnafjörður tengist þjóðvegakerfinu með bundnu slitlagi. Þarna er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir íbúa þessara svæða, en ekki síður fyrir aðra landsmenn og ferðaþjónustuna. Jarðgöng um Almannaskarð eru mikilvæg, en er ekki síst spurning um að vegabætur þar verði leystar á ásættanlegan hátt út frá umhverfissjónarmiðum.

Vil hljótum að fagna því að 700 millj. kr. ganga til atvinnuþróunarátaks á vegum Byggðastofnunar. Stjórn stofnunarinnar mun vinda sér í að vinna tillögur um efnið hratt og vel. Miða þarf við að við núverandi aðstæður verði til sem flest störf á þeim svæðum sem veikar standa atvinnulega séð og að þar verði sérstaklega litið til atvinnumála kvenna á landsbyggðinni.

Að síðustu, hæstv. forseti. Framlög til menningarhúsa eru mikilvæg. Starfsemi í menningarhúsum er ekki eingöngu mikilvæg til þess að bæta mannlífið og hressa upp á sálartetrið, menning sem atvinnugrein er sífellt að verða mikilvægari í íslensku efnahags- og atvinnulífi.