Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 16:01:37 (3792)

2003-02-12 16:01:37# 128. lþ. 78.94 fundur 428#B ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[16:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka fyrir svörin og fyrir þessa umræðu. Ég held að það hafi verið eðlilegt að við tækjum smáupphitun á þessu máli hér á þingi í beinu framhaldi af tilkynningu ríkisstjórnarinnar, auk þess sem það bíður okkar á næstu dögum að fjalla um málið þegar það birtist í formi fjáraukalagafrv. og væntanlega einnig breytinga á vegáætlun, sem svo vel vill til að er hér opin í meðförum þingsins. Varðandi útfærslu einstakra framkvæmda þar tel ég augljóst mál að það sé eðlilegast að þetta aukna fjármagn til vegagerðar fari í þann lögboðna vinnufarveg sem vegalög gera ráð fyrir, sem felur þá í sér að þingmannahópar kjördæma fjalla um framkvæmdir á sínu svæði o.s.frv.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði fögnum því að sjálfsögðu að auknu fjármagni sé varið til samgöngubóta, atvinnuþróunarstarfsemi og slíkra hluta. Það er jákvætt hvað sem öðru líður að fjárfesta í nútímalegu samgöngukerfi og sú fjárfesting mun standa eftir. Ég held að það sé líka rétt að þau verðmæti sem þjóðin hefur byggt upp í þjónustufyrirtækjum sínum, ef þau eru seld á annað borð og leggjum þá til hliðar deilur um einkavæðingu þeirra eða ekki einkavæðingu, séu færð yfir í að styrkja innviði samfélagsins, bæta samgöngur, fjarskipti og aðra slíka hluti.

Það hefði að sjálfsögðu mátt líta til fleiri hluta, og það komu í sjálfu sér ekki svör við því hvort mögulegt væri að líta til fleiri málaflokka, svo sem opinberrar þjónustu. Þar eru byggingar, þar er starfsemi, þar eru viðhaldsverkefni sem að sjálfsögðu mætti einnig ráðast í og mundu kannski dreifa afrakstrinum af þessu átaki betur um þjóðarlíkamann en ella.

Það er rétt, það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að hér sé aðallega um karlastörf að ræða, og að því mætti huga. En reyndar er það svo, og það er nýtt, að karlar eru nú meiri hluti atvinnulausra í landinu. Það má því segja að það séu að nokkru leyti nýjar aðstæður.