Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 16:03:53 (3793)

2003-02-12 16:03:53# 128. lþ. 78.94 fundur 428#B ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[16:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Við vitum auðvitað að þessi aðgerð mun hafa óbein áhrif á fjölda annarra starfa, ekki bara þau sem snúa að jarðýtum, gröfum og vegagerð. Við skulum átta okkur á því.

En ég tek undir með málshefjanda, þetta voru ágætisumræður. Að vísu átti refurinn hér kollega sem sögðu að berin væru súr, það getur alltaf gerst. Meginatriðið er þó það að vera ekki bundinn með hugann við það heldur raunhæf verk; verk sem skila árangri, verk sem koma þjóðinni í heild vel, en ekki vera að hugsa um flokkspólitíska hagsmuni í því sambandi.

En vegna þess að minnst var á Reykjavík, ég vék ekki að henni í ræðu minni en það kom okkur á óvart, okkur utanrrh., þegar við fórum yfir þessi mál með vegamálastjóra að skipulagsmál höfuðborgarinnar skyldu vera í því ástandi sem þau eru. Það verður bara að segjast eins og er. Og ég sem gamall borgarstjóri, borgarfulltrúi í 20 ár og 1. þm. Reykv. verð að segja að ég hef verulegar áhyggjur af því að skipulagsmálin skuli vera í þeirri stöðu sem þau eru, til að mynda hin mislægu gatnamót á mörkum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Vegamálastjóri tjáði okkur að það væri engin leið til þess, eins og skipulagsmálum væri háttað hjá borgaryfirvöldum, að hægt yrði að byrja á því verki innan 18 mánaða. (LB: Það eru nú aðrir ...) Það eru auðvitað mikil vonbrigði að skipulagsmálum sjálfrar höfuðborgarinnar skuli vera þannig komið að þegar menn vilja grípa til aðgerða sé ekki hægt að koma peningum til hjálpar borgarbúum einu sinni vegna þess hvernig menn hafa búið í haginn fyrir sér í þessu sveitarfélagi. (Gripið fram í.) Ég ætlaði ekki að taka þetta upp en þingmaður Samfylkingarinnar gerði þetta að umtalsefni og því var nauðsynlegt að svara þessu hér. (JóhS: ... skipulagsmálum Reykjavíkurborgar.) Ónei, ónei, ónei, frú þingmaður, ónei --- og þú veist betur.