Skýrsla nefndar um flutningskostnað

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 10:31:42 (3795)

2003-02-13 10:31:42# 128. lþ. 79.94 fundur 432#B skýrsla nefndar um flutningskostnað# (umræður utan dagskrár), Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[10:31]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Flutningar og flutningsmál skipta afar miklu máli fyrir allt atvinnulíf og búsetu hvarvetna á landinu. Það eru stöðugt umræður um flutningana, hvernig megi bæta þá, hvernig þeir hafi þróast, hvernig verðlag hafi breyst og í tilefni af því var skipuð nefnd fyrir rúmu ári síðan á vegum samgrh. til þess að gera úttekt á þessum málum.

Þessi starfshópur skilaði áliti nú fyrir skömmu og birti í skýrslu. Þar kemur fram sem við öll vitum að miklar breytingar hafa orðið á sviði flutninga á síðustu árum. Þær felast m.a. í fækkun strandferðaskipa og fækkun viðkomustaða þeirra, mikilli aukningu flutninga með vörubifreiðum og sameiningu og stækkun fyrirtækja í þessari grein. Háværar raddir hafa verið um að flutningskostnaður fyrirtækja og íbúa á landsbyggðinni hafi aukist verulega og sé enn að aukast.

Í skipunarbréfi þessa starfshóps sem vann á vegum samgrh. var honum falið að vinna greinargott yfirlit yfir flutningskostnað og þróun hans og fjalla um leiðir til að lækka flutningskostnaðinn og kanna hvort aðgerðir stjórnvalda hafi leitt til ójöfnuðar í samkeppni hinna ólíku flutningafyrirtækja. Þá skal hópurinn gera tillögur um hvernig megi ná sem mestri samkeppni og lágum flutningskostnaði á landsbyggðinni.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni og við vitum öll er að nú er aðeins eitt skipafélag, Eimskip, með eitt skip í siglingum meðfram ströndum landsins og viðkomustöðum fækkar stöðugt. Jafnframt er það staðreynd að bæði Eimskip og Samskip, aðalsjóflutningsaðilar hér á landi, ráða nú einnig yfir landflutningsfyrirtækjunum.

Einnig kemur fram í skýrslunni að ef litið er á gjaldskrárbreytingar á flutningi innan lands síðustu sex árin þá hefur vísitala neysluverðs hækkað um 25% en flutningskostnaður, t.d. til Akureyrar, samkvæmt almennri gjaldskrá um sirka 100% og til Egilstaða um sirka 120% og til annarra staða tilsvarandi. Því er ljóst, herra forseti, að flutningskostnaður hefur aukist og hlutur hans í heildarverðmynduninni, bæði á vörum og þjónustu út um land langt umfram þróun vísitöluverðs.

Í skýrslunni er fjallað um ýmis atriði sem gætu hafa haft þarna áhrif. En á eitt er bent, ekki liggur lengur fyrir nein raunveruleg gjaldskrá. Það liggur kannski fyrir einhver almenn gjaldskrá, en síðan semja menn sig frá henni með einum eða öðrum hætti þannig að í raun er ekkert vitað hver hinn eiginlegi flutningskostnaður er, þ.e. ef maður ætlaði að fara að kaupa flutning. Þetta er svipað og að fara út í búð og það stæðu nánast engar verðmerkingar á vörunni heldur yrði að fara á bak við til þess að semja um verðið. Það er enginn sýnileiki í verðlagningunni. Þetta er eitt af því sem skýrsluhöfundar benda á að hamli bæði eðlilegri samkeppni og eðlilegri umfjöllun um þetta mál.

Herra forseti. Ég hef því beint nokkrum spurningum til hæstv. samgrh. sem hljóða svo:

Hverjar eru meginniðurstöður skýrslunnar varðandi þróun flutningskostnaðar í landinu? Telur ráðherrann að grípa eigi inn í með opinberum aðgerðum til að jafna flutningskostnað í landinu? Kæmi til greina að fara leið Svía eða Norðmanna í jöfnun flutningskostnaðar? Er ráðherrann sammála skýrsluhöfundum um að fákeppni ríki í flutningum hér á landi og sé svo hvaða leiðir sér ráðherrann til að láta þá fákeppni sem er í flutningum ganga til baka? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að gjaldskrár flutningafyrirtækja verði gagnsæjar og að settar verði siðareglur milli kaupanda flutningsþjónustu og flutningsaðila hliðstætt því sem Samkeppnisstofnun hefur sett um viðskipti milli smásala og birgja? Hyggst ráðherra beita sér fyrir endurskoðun á því flutningsjöfnunarkerfi sem nú er við lýði og miðast við sjóflutninga en hefur nú verið flutt upp á land? Að lokum, herra forseti: Hvaða leiðir sér ráðherrann til að styrkja samkeppnisstöðu sjóflutninga?