Skýrsla nefndar um flutningskostnað

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 10:37:02 (3796)

2003-02-13 10:37:02# 128. lþ. 79.94 fundur 432#B skýrsla nefndar um flutningskostnað# (umræður utan dagskrár), samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[10:37]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. frummælanda fyrir að taka þetta mál upp utan dagskrár á Alþingi. Ég tel að sú skýrsla sem hér hefur verið nefnd sé afar mikilvæg og afar mikilvægt innleg í þá nauðsynlegu umræðu sem þarf að fara fram um flutningskostnað í okkar stóra og dreifbýla landi. Við þurfum að hafa mjög auga á þeim hlutum.

Vinnan við skýrsluna endurspeglar að sjálfsögðu þann ríka vilja sem stjórnvöld hafa til þess að beita öllum leiðum sem færar eru til þess að draga úr flutningskostnaði og það viljum við svo sannarlega gera.

Ekki síst í ljósi umræðunnar síðustu dagana er ástæða til að benda á það hér að allra mikilvægasta aðgerðin til þess að lækka flutningskostnað er uppbygging vegakerfisins, endurbætur á vegakerfinu, stytting leiða til þess að gera flutningakerfið í landinu hagkvæmara, uppbygging og endurbætur í höfnum landsins og endurbætur á flugvallakerfi landsins. Allt þetta er liður í því að lækka flutningskostnað. Við erum um þessar mundir að undirbúa eitt allra mesta átak í þeim efnum sem ráðist hefur verið í. Þetta vil ég nefna í tengslum við þessa umræðu alveg sérstaklega.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að þungaskatturinn er ekki eins afgerandi þáttur í flutningskostnaði og menn hafa kannski metið að væri og í samræmi við þá umræðu sem um það hefur verið. Flutningskostnaðurinn hefur hins vegar vaxið á undanförnum árum samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni, umfram hækkun verðlags. Ástæður þess eru margvíslegar að ég tel. Ég tel að kannski sé ekki hægt að gefa sér það algerlega, þó að því sé látið liggja í skýrslunni, að það sé vegna fákeppni. Fáir keppa á þessum markaði. Það er alveg rétt og á það er bent í skýrslunni. En ég tel að sú mikilæga endurskipulagning sem átt hefur sér stað hjá flutningafyrirtækjunum endurspegli m.a. þessa breytingu á verðlagi. Kannski er þarna komin fram rauntekjuþörf greinarinnar vegna þess að á undanförnum árum hafa of litlar tekjur komið inn í þessa starfsemi og á það þarf að líta í þessu ljósi. Ég held að ekki sé hægt að gefa sér það algerlega að fákeppni hafi leitt til stöðugt vaxandi kostnaðar umfram það sem við mátti búast vegna þess kostnaðar sem fylgir þessum flutningum.

En hvað um það. Ég legg á það áherslu að gjaldskráin þurfi að vera gegnsæ og ég tek undir það sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að auðvitað þurfa samkeppnisreglur að vera í heiðri hafðar og samkeppnisyfirvöld þurfa að beita sér þarna. Það er ekki nóg að ráðherrar og þingmenn gefi yfirlýsingar um að gott siðferði þurfi að ríkja í þessum viðskiptum og í samkeppni á flutningamarkaði heldur þurfa flutningsaðilarnir og eftirlitsstofnanir eins og Samkeppnisstofnun að líta til þess.

Sjóflutningar eru í mörgum tilvikum ódýrari. En það er alveg ljóst að þróunin hefur verið sú að landflutningarnir hafa yfirburði. Landflutningarnir geta oft og tíðum tryggt miklu betri og fljótvirkari þjónustu. Engu að síður tel ég að stuðla þurfi að sjóflutningum þar sem það er hagkvæmt. Ég tel að sú leið sem þarf m.a. að líta til í þeim efnum sé að lækka vörugjöld hafnanna. Það er töluverður kostnaður og ég tel að líta þurfi til hans. Málið er núna á vettvangi Byggðastofnunar. Ríkisstjórnin fjallaði um þessa skýrslu og við gerum ráð fyrir því að Byggðastofnun fari mjög vandlega ofan í skýrsluna og leggi á ráðin um að stuðla að aðgerðum í samræmi við aðrar byggðaaðgerðir okkar um þessar mundir. Að því munum við vinna og á það leggur ríkisstjórnin mikla áherslu.