Skýrsla nefndar um flutningskostnað

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 10:55:37 (3803)

2003-02-13 10:55:37# 128. lþ. 79.94 fundur 432#B skýrsla nefndar um flutningskostnað# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[10:55]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem hér er til umræðu um flutningskostnað, skýrsla nefndar, er góðra gjalda verð en hún er aðeins úttekt á stöðunni eins og hún er og manni finnst á umræðunni hér að það sé heldur fátt um ábyrgar ákveðnar leiðir að fara til þess að ná settu marki sem allir virðist vera sammála um.

Við getum verið sammála um að aukin vegagerð og stytting leiða sé nauðsynleg. En á sama tíma og allar aðrar þjóðir leggja áherslu á aukna sjóflutninga og aukna flutninga á ódýran hátt með járnbrautum, þá stefnum við öllu upp á land. Auknir flutningar á sjó eru nauðsynlegir og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð telur það eina virkustu leiðina til þess að ná niður vöruverði á landsbyggðinni. Með niðurgreiðslu á slíkri þjónustu veitist líka aðhald til fyrirtækja sem stunda flutninga á landi. Stór hluti þeirra vöruflokka sem verið er að flytja á landi á að flytja á sjó af umhverfislegum ástæðum. Stór hluti þessara vara þarf ekki að komast á nokkrum klukkutímum á milli staða. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að skoða þetta dæmi pólitískt, taka póltískar ákvarðanir, líka í umhverfislegu tilliti hvað varðar flutninga um landið.

Fákeppnin sem afleiðing af stefnu undanfarinna ára hefur leitt til hækkunar ekki bara á landflutningum heldur í lofti líka. Við erum komnir með fákeppni í loftflutningum sem hafa leitt af sér alveg ótrúlegar kostnaðarhækkanir fyrir landsbyggðarfólk, bæði hvað varðar farþegaflutninga og auðvitað einnig hvað varðar vöruflutninga. Þess vegna er þörf á ákveðinni stefnu og við höfum það sem stóra málið hjá okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að efla strandflutninga til að ná niður vöruverði til iðnaðar og einstaklinga á landsbyggðinni.