Skýrsla nefndar um flutningskostnað

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 10:57:45 (3804)

2003-02-13 10:57:45# 128. lþ. 79.94 fundur 432#B skýrsla nefndar um flutningskostnað# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[10:57]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Því hefur oft verið haldið fram að hækkun flutningskostnaðar í landinu stafi af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á skattlagningu hins opinbera. Skýrslan sem við höfum verið að ræða sýnir fram á að þetta er röng fullyrðing. Það verður að skýra breytingar á flutningskostnaði á allt annan hátt. Það er mjög mikilvægt að þetta liggi fyrir og þess vegna er nauðsynlegt að árétta það að það sem Samfylkingin hefur verið að halda fram t.d. með málflutningi sínum í dag er einfaldlega rangt.

Það er ljóst mál að þjónusta flutningafyrirtækjanna í heild sinni hefur verið að batna. Nú er það þannig að stóru flutningafyrirtækin flytja daglega inn á 90 staði vörur sínar og sumar hverjar oftar en einu sinni á dag. Það liggur líka fyrir að flutningskostnaður hefur lækkað á þeim mörkuðum þar sem eðlileg samkeppni hefur verið til staðar. Ferskfiskflutningar eru t.d. gott dæmi um þetta. Einnig liggur fyrir hvað varðar flutninga fyrir stóru matvörufyrirtækin og er það athyglisvert að í skýrslunni kemur fram að flutningskostnaður af heildarsölu flutninga stóru matvörufyrirtækjanna á Vestfjörðum og Eyjafjarðarsvæðinu er innan við 1% af heildarsölunni. Þetta er mjög athyglisvert.

En þá er spurningin: Hvað ætlum við að gera? Hvað á að gera? Það sem skiptir auðvitað mestu máli eins og hæstv. samgrh. nefndi áðan er að við getum eflt og aukið samgöngubætur og það er það sem verið er að gera, stytta flutningaleiðir og bæta vegi. Það leiðir til þess að flutningskostnaður mun lækka.

Einnig er alveg rétt sem kemur fram í skýrslunni og menn hafa tekið undir að við eigum að skoða það hvort við eigum að fara í að endurgreiða kostnað á skilgreindum svæðum vegna flutningskostnaðar. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að í skýrslunni kemur fram að þar sem þessu er beitt, t.d. í Noregi, þá er þó ekki veitt til þessara hluta nema innan við 200 millj. íslenskra króna sem segir okkur að jafnvel þar sem verið er að beita þessu er alveg augljóst mál að þetta hefur ekki afgerandi áhrif á flutningskostnaðinn í landinu.

Síðan eigum við auðvitað að stuðla að aukinni samkeppni á þessum sviðum. Ljóst er að á ýmsum svæðum er þessi samkeppni ekki til staðar þar sem hún ætti að vera til staðar og gæti verið til staðar og það er auðvitað það sem þarf að beina sjónum okkar að vegna þess að við sjáum að þar sem er virk samkeppni á þessu sviði hefur flutningskostnaður lækkað.