Skýrsla nefndar um flutningskostnað

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:00:08 (3805)

2003-02-13 11:00:08# 128. lþ. 79.94 fundur 432#B skýrsla nefndar um flutningskostnað# (umræður utan dagskrár), Flm. JB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:00]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin þótt þau hefðu mátt vera skýrari. Hann kemur kannski inn á það á eftir.

Það er svo sem táknrænt að í lok kjörtímabilsins skuli loks talað um hvernig jafna megi flutningskostnað í landinu og styrkja hag landsbyggðarinnar. Þetta er svona síðustu dagana fyrir kosningar. Ég minnist þess frá kosningabaráttunni fyrir fjórum árum að þá var nákvæmlega hliðstæð umræða.

Þessi skýrsla segir skýrt að það er mismunun í gangi gagnvart atvinnulífi og einstaklingum eftir búsetu. Hún bendir líka á alvarlegt ástand sem upp er komið. Hún bendir á fákeppni. Hún bendir á að gjaldskrá er ekki gagnsæ heldur er hún samningsjukk sem hindrar eðlilegan samanburð og alla eðlilega þróun í viðskiptum, flutningum og öðru. Skýrslan dregur einnig fram að það er verið að flytja vörur á landi, eftir þjóðvegunum sem alls ekkert bera hina gríðarlega þungu flutninga nema með ærnum og miklum fjárfestingum, flutninga sem væru miklu betur komnir úti á sjó, þungaflutningar, áburðarflutningar, olíuflutningar o.s.frv.

Það sem á vantar er að í stað þess að vísa málinu til Byggðastofnunar til enn frekari skoðunar þarf pólitíska ákvörðun um hvað skuli gera. Er vilji til að taka á málunum og jafna flutningskostnað? Það eru til leiðir en hins vegar vantar hina pólitísku ákvörðun.

Það hefur enga þýðingu að senda þetta mál til Byggðastofnunar til frekari skoðunar ef því fylgja ekki skýr pólitísk skilaboð um hvað á að gera, hverju ætlunin er að ná fram.