Skýrsla nefndar um flutningskostnað

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:02:27 (3806)

2003-02-13 11:02:27# 128. lþ. 79.94 fundur 432#B skýrsla nefndar um flutningskostnað# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:02]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vissulega fylgja skýr pólitísk skilaboð því sem við höfum gert, þ.e. að vinna þessa skýrslu til að hafa fast land undir fótum til að geta gert tillögur og Byggðastofnun geti lagt upp með tillögur, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, um aðgerðir til lækkunar á flutningskostnaði í aukinni samkeppni á flutningamarkaði í landinu. Þetta er liður í aðgerðum ríkisvaldsins gagnvart byggðunum. Það eru klár og skýr pólítísk skilaboð og ég vísa því algjörlega á bug sem fram kom hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller að við skellum skollaeyrum við þörfinni fyrir lækkun á flutningskostnaði. Það er fjarri öllu lagi. Við erum að vinna í þessum málum.

Það sem kemur fram í þessari skýrslu er auðvitað athyglisvert, m.a. að það eru ekki einfaldar leiðir til lausnar á málinu, eins og fram kom hjá hv. þm., að það ætti bara að leggja af alla skatta. Það er auðvitað einfaldasta leiðin hvarvetna. Þá mundi væntanlega fara hrollur um alla fjármálaráðherra allra tíma ef það væri niðurstaðan.

Leið númer eitt er úrbætur í samgöngukerfinu og að tryggja eðlilegt og betra samkeppnisumhverfi. Það er mikilvægasta verkefnið.

Hins vegar tel ég að það eigi að skoða, sem gert verður á vettvangi Byggðastofnunar, leiðir til beinna styrkja. Það eru leiðir sem nágrannar okkar hafa farið. Eins og fram kom hér hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni hafa Norðmenn farið mjög varlega í þetta og það eru afar lágar upphæðir sem þeir leggja inn í þetta.

En stóru styrkirnir eru til uppbyggingar hafnanna og vegakerfisins. Það eru hinir stóru og mikilvægu byggðastyrkir til lækkunar á flutningskostnaði.