Umræða um flugvallarskatta

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:09:56 (3812)

2003-02-13 11:09:56# 128. lþ. 79.93 fundur 431#B umræða um flugvallarskatta# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil koma til varnar forseta og stjórn þingsins. Ég held að virðulegur forseti sé í fullum rétti að leyfa þessa umræðu. Það er auðvitað ekki svo að flutningur dagskrármáls loki á Alþingi öllum umræðum um viðkomandi málaflokk. Það geta alltaf komið upp einstök tilvik eða jaðarviðfangsefni á sviði mála af þessu tagi sem gera eðlilegt að um þau sé skipst á skoðunum.

Auk þess er nú hv. þm. Hjálmar Árnason ekki einn um það að hafa hreyft við þessum málum. Það er t.d. annað þingmál hér sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson er 1. flm. að. Það varðar niðurfellingu lendingargjalda fyrir millilandaflug frá Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllum. Ekki hefur 1. flm. þess máls eða aðrir sem að því standa amast við því að málið sé rætt hér í almennu samhengi.

Hv. þm. Hjálmar Árnason verður bara að sætta sig við að hann hefur ekki fengið einkaleyfi á þeirri hugsun að hreyfa eitthvað við lendingargjöldum í flugi þó að hann hafi flutt um það merkt frv. örugglega að eigin áliti.

Svo verð ég að vekja athygli hv. þm. á því að hann er stuðningsmaður ríkisstjórnar --- eða hvað? Hann hefur því væntanlega hæg heimatökin til að, ekki bara til að flytja eitthvert sýndarmál heldur til að láta hrinda þessu í framkvæmd. Hvar eru nú áhrif og mekt hv. þm., að kippa þessu ekki í liðinn, háttsetts manns í stjórnarliðinu? (EMS: Formaður samgn.) Nú, það er ekkert annað. Það er upplýst hér að hv. þm. er bara hvorki meira né minna en formaður samgn. Af hverju fór ekki hv. þm. á fund samgrh. og samdi um þetta við hann og kippti þessu í liðinn í staðinn fyrir að vera að vandræðast hér með eitthvert frv.? Heldur amast hann við því að aðrir leggi honum lið í málinu.