Flugvallarskattar

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:27:21 (3817)

2003-02-13 11:27:21# 128. lþ. 79.95 fundur 433#B flugvallarskattar# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:27]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þegar grannt er skoðað eru flugvallarskattar ekkert annað en skattar á flugfélögin. Ef þeir væru ekki til staðar gæti maður að öðru jöfnu gert ráð fyrir því að flugfélögin gætu hækkað farseðla sína sem því næmi.

Það virðist liggja fyrir, og hefur raunar komið hér fram, að Eftirlitsstofnun EFTA telur að hér séu brotnar reglur. Ég man ekki betur en að það kæmi fram í máli hæstv. utanrrh. að með nokkurri vissu mætti telja að það mál gengi þann veg að við værum að brjóta reglurnar.

Hér var minnst á ferðaþjónustuna. Menn leggja hver í kapp við annan áherslu á mikilvægi hennar. Hér fullyrti meira að segja hv. þm. Hjálmar Árnason sem telur sig hafa einkarétt á þessu máli eftir að því var komið í nefndina hans að það mundi græðast á hverjum og einum einasta farþega sem kæmi til landsins sem svaraði þessu gjaldi.

Hæstv. samgrh. margtók fram að það yrði að tryggja fjármagn til flugvallanna sem þessu næmi, þessa 600 millj. kr. hnyskju. Hvað er hann að tala um? Er ekki nýbúið að reiða fram milljarða á milljarða ofan af fé sem enginn borgar? Formaður Framsfl. tók fram að þetta væri Íslandsmet í sögunni af fjármagni sem enginn þyrfti að borga þar sem menn hafa hirt þetta af götu sinni. Ætli það finnist ekki einhverjar 600 millj. til þess að jafna þetta? Maður skyldi halda það.

Þetta eru óeðlilegir skattar og það hefur jafnan verið reyndin á Íslandi að það hefur verið afar erfitt að ná sköttum til baka sem einu sinni hafa verið lagðir á. Þessum skatti skulum við henda fyrir róða.