Flugvallarskattar

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:34:15 (3820)

2003-02-13 11:34:15# 128. lþ. 79.95 fundur 433#B flugvallarskattar# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:34]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við ræðum flugvallarskatta eða gjald af farþegum. Þetta er sérstakur skattur sem lagður var á 1987 og er sérstaklega til þess ætlaður að tryggja tekjur til flugvallarreksturs. Eftir orð hv. þm. Árna R. Árnasonar, vil ég leggja á það áherslu að til eru tveir varaflugvellir, Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur. Þeir eru varaflugvellir fyrir millilandaflug og við eigum að horfa á Keflavíkurflugvöll og þessa tvo flugvelli sem eina heild.

Varðandi þá skatta sem við leggjum á, bæði farþegaskattana og eins þjónustuskatta, þá er ljóst að með þessari skattlagningu styrkjum við í raun samkeppnisstöðu Flugleiða eða Icelandair eins og það heitir núna og þá sérstaklega gagnvart lággjaldaflugfélögunum. Lággjaldaflugfélög hafa styrkst og rekstur þeirra hefur aukist. Mörg þeirra hafa áhuga á að fljúga hingað til lands yfir sumartímann og það segir sig sjálft að þegar fargjaldið er um 10 þús. kr. þá vegur 3 þús. kr. skattur þungt. Ég tel að við þurfum að horfa á málið sem eina heild, þ.e. á heildarhagsmunina. Hvað vega þessar 600 millj. á ári sem við fáum í skatt á móti hagsmunum ferðaþjónustunnar og að hluta til samkeppnisstyrkingu fyrir okkar íslenska flugfélag, þ.e. á móti því að fá hingað fleiri flugfélög, lággjaldaflugfélög, fleiri ferðamenn og aukna ferðaþjónustu og dreifa henni út um land?