Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 12:06:00 (3826)

2003-02-13 12:06:00# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[12:06]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Frv. sem hæstv. ráðherra var að mæla fyrir kemur í stað laga sem sett voru á þessu kjörtímabili. Það sýnir það hvað þróunin er hröð að á þessum skamma tíma þarf að skipta út reglum og koma með nýjar. Ég kem að því síðar í ræðu minni.

Það er aðeins eitt sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í sem stendur. Í frv. er mikið fjallað um jöfnunartæki eins og jöfnunargjald, alþjónusta og fleira sem ég er mjög hrifinn af. Þau gera það að verkum að öllum landsmönnum, sama hvar þeir eru á landinu, verði tryggð ákveðin þjónusta. Þetta er mjög í anda jafnaðarmennsku. Þarna er jafnaðarstefnan í framkvæmd sem er allt hið besta mál.

Herra forseti. Reyndin er sú að nú, árið 2003, búa ekki allir staðir á landinu við jafnræði, þ.e. möguleika til jafns við aðra á tengingum, t.d. möguleika á ljósleiðara. Það kom upp í huga minn þegar mælt var fyrir frv. að fara þarf í aðgerðir sem gera þarf til að tryggja íbúum á ákveðnu svæði ljósleiðaratengingu. Þar á ég við íbúa á Kópaskeri og Raufarhöfn. Á kortum sem sýna ljósleiðarakerfi Landssímans skera þessi tvö byggðarlög sig úr. Þetta landsvæði er ekki með ljósleiðaratengingu. Vegna þessa vil ég spyrja hæstv. samgrh. út í það, þann sem heldur um hlutaféð í Landssíma Íslands, hvaða áætlanir séu á næstu missirum uppi um að koma m.a. þessum tveimur byggðarlögum í samband við ljósleiðaratengingu. Auðvitað háir þetta atvinnustarfsemi, fjarkennsluhugmyndum og fjarvinnsluhugmyndum íbúa á þessu svæði.