Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 12:08:16 (3827)

2003-02-13 12:08:16# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[12:08]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nokkrum sinnum, að mig minnir, svarað, bæði skriflega og munnlega, fyrirspurnum um fyrirhugaða uppbyggingu bæði ljósleiðarakerfisins og gagnaflutningsþjónustu við hinar dreifðu byggðir. Þetta hefur oft verið til umræðu.

Ég hef ekki við höndina, við þessa umræðu, upplýsingar frá Landssímanum um næstu skref. Hins vegar er alveg ljóst að á Landssímanum hvílir alþjónustukvöð hvað varðar hinar almennu ISDN-tengingar til gagnaflutninga gagnvart símnotendum. Það verður ekki undan því vikist í þessum byggðum fremur en öðrum að sú þjónusta verði veitt. Auk þessa hef ég lagt á það ríka áherslu að símafyrirtækin, og þá ekki bara Landssíminn þó að hann sinni mest og nær eingöngu dreifðu byggðunum, standi þannig að verki að þessi uppbygging á fjarskiptakerfinu nái sem víðast um landið.

Ég get ekki svarað spurningunni sem stendur hvað varðar þessi tilteknu byggðarlög en þetta er hin almenna stefnumótun og eins og kom fram í ræðu minni er það stefna mín að tveggja megabæta háhraðasamband sé um allt land. Það er það markmið sem við Íslendingar eigum að stefna að.