Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 12:10:22 (3828)

2003-02-13 12:10:22# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[12:10]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því meginnmarkmiði sem hér er lýst, með tveggja megabæta samband til allra byggðarlaga landsins. Ég skil jafnframt að hæstv. ráðherra geti ekki hér og nú svarað spurningu minni hvað varðar þessi tvö byggðarlög.

En í skýrslunni sem hæstv. ráðherra vitnaði til áðan er mynd af okkar ágæta landi, Íslandi, sem sýnir ljósleiðarakerfi Landssímans, hvernig það fer um strandirnar og til flestallra byggðarlaga. Það stingur hins vegar í stúf að þetta svæði er ekki komið með ljósleiðaratengingu. Ég vil því óska eftir því að hæstv. samgrh. segi okkur frá því síðar í dag eða í lok þessarar umræðu hvaða áform eru um lagningu ljósleiðara til þessara tveggja byggðarlaga.

Herra forseti. Það hefur komið fram í samþykktum og bréfasendingum sveitarstjórna á þessu svæði að þetta er mjög ofarlega í hugum íbúa þessara byggðarlaga að þau séu nánast, ég segi ekki þau einu en a.m.k. meðal þeirra fáu sem enn hafa ekki fengið lagðan ljósleiðara til sín. Mig minnir, herra forseti, að það hafi komið fram á fundi sem ég átti á Raufarhöfn ásamt öðrum fjárlaganefndarmönnum sem þar voru á ferð á því svæði, með sveitarstjórnum Öxarfjarðarhrepps og Raufarhafnar, að 26 kílómetra leið sé frá ljósleiðaranum þar sem hann liggur þarna yfir og til þessara staða. Ég hvet til þess, herra forseti, að hæstv. samgrh. beiti sér sem allra fyrst fyrir því að Landssíminn standi við að sinna þessum byggðarlögum eins og öllum öðrum. Auðvitað er það svo að við getum verið hreykin af ljósleiðaratengingum landsins en við viljum sjá þetta fullkomið.