Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 12:14:55 (3830)

2003-02-13 12:14:55# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[12:14]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. fór yfir ýmis atriði þessa frv. sem hér liggur fyrir. Hann gerði m.a. mjög rækilega að umtalsefni GSM-farsímakerfið og mikilvægi þess. Hann minntist á að uppi væru hugmyndir um að Vegagerðin og ýmsir aðilar settu upp senda fyrir GSM-farsíma vítt og breitt um landið þar sem hver og einn teldi nauðsyn á. Að mínu mati er þetta röng nálgun. GSM-farsímakerfið er orðið hluti af hinu almenna samskiptakerfi landsmenna. Sem dæmi má nefna að um 240.000 GSM-farsímatæki eru í notkun í landinu. Ég tel því tíma til kominn til að GSM-farsímakerfið verði látið falla undir alþjónustukvaðir, það verði skilgreint þannig að allir eigi aðgang að GSM-farsímakerfinu.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé miklu eðlilegra að þetta sé hluti af hinu almenna gagnaneti sem t.d. Landssímanum, sem byggir upp fjarskiptanetið vítt og breitt um landið, væri falið að koma upp, axla ábyrgð á og standa að rekstri þess. GSM-farsímarnir eru orðnir undirstaða fyrir bara samkeppnishæfni í atvinnulífi og fyrir búsetu vítt og breitt um landið. Því er mikilvægt að GSM-farsímaþjónustan og uppbygging slíkra fjarskipta verði tekin þannig föstum tökum.