Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 12:21:33 (3833)

2003-02-13 12:21:33# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[12:21]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. er rétt að taka fram að ég tel ekki að Vegagerðin eigi að fara að reka símafyrirtæki. Það er alveg af og frá. Hins vegar eru erfiðleikar með uppbyggingu á farsímakerfunum á ýmsum fáfarnari fjallvegum. Þess vegna hefur verið lagt á ráðin um að Vegagerðin kæmi að þessu með símafyrirtækjunum með einhverjum hætti og gæti þannig hraðað þessari uppbyggingu. En ég tel að Vegagerðin eigi alls ekki að reka farsímasenda. Það tel ég ekki skynsamlega leið.

En eins og ég sagði áðan þá held ég að tækninni fleygi svo hratt fram að við þurfum að nýta okkur það. Áður en langt um líður verður, held ég, farsímatæknin komin svo vítt um að fullnægjandi sé.

Ég tek undir með þingmanninum að gerðar eru miklar kröfur um þessa þjónustu. Eins og kom fram í ræðu minni hefur hún orðið til þess að skapa okkur algerlega nýjar aðstæður í viðskiptum og öllum samskiptum og það er vegna þess frumkvæðis og þeirrar framsýni sem við höfum sýnt með setningu fjarskiptalaga á Íslandi --- það er mergurinn málsins --- og með þeirri framsýni sem símafyrirtækin og stjórnendur þeirra hafa sýnt við uppbyggingu þessara kerfa.

Staða okkar Íslendinga er þess vegna betri en flestra annarra þjóða og það er afar mikilvægt fyrir okkur að geta sagt frá því.