Fjarskipti

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 12:38:06 (3835)

2003-02-13 12:38:06# 128. lþ. 79.2 fundur 599. mál: #A fjarskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[12:38]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Í þessu frv. til laga um fjarskipti er fyrst og fremst kveðið á um ákveðin atriði sem lúta að erlendum samningum sem við eigum aðild að og kveða á um fjarskiptaþjónustu hér á landi en einnig eru í því önnur ákveðin stefnumarkandi atriði. Eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir í framsögu sinni er þróun fjarskiptamála mjög ör, þó ekki endilega örari en menn bjuggust við á allra síðustu 3--5 árum þegar menn voru með hugmyndir um og trú á að þetta mundi breytast miklu hraðar. Sú tilfinning var þá að það tæki því ekki að fara í uppbyggingu á ákveðnu fjarskiptakerfi, borgaði sig ekki vegna þess að breytingar voru svo hraðar að það kerfi yrði orðið úrelt áður en það næsta byðist.

Þetta hefur samt ekki reynst svo. Í grunninn er fjarskiptakerfið í sjálfu sér nokkuð ákveðið og þróun þess byggist fyrst og fremst á ákveðnum föstum grunni. Þess vegna er mjög mikilvægt að átta sig á því að það er allt í lagi að ráðast í framkvæmdir á fjarskiptasviðinu þó að tækniþróunin sé kannski nokkuð ör, þær munu nýtast áfram til að taka á móti þá þeim nýjungum sem koma. Þetta er vert að hafa í huga einmitt í svo stóru og dreifbýlu landi sem Ísland er.

Hér hefur verið rakið hið mikla mikilvægi fjarskipta fyrir þessa þjóð. Það var metnaðarmál á sínum tíma þegar Landssíminn var lagður hér á landi að hann bærist heim á alla bæi, í öll hús. Það var metnaðarmál að engin byggð væri svo afskekkt að þangað skyldi ekki kappkostað að leggja síma. Um þetta var ekki neinn ágreiningur meðal þjóðarinnar. Þetta var hluti af þeirri samkennd og þeirri sýn sem við höfum haft lengst af í gegnum aldirnar um að við værum ein þjóð og að aðgengi að grunnþjónustu, almannaþjónustu eins og samskiptum, fjarskiptum, ætti að vera jafnt fyrir alla.

Þessi sýn á að vissu leyti í vök að verjast þar sem sú afstaða hefur orðið æ sterkari að hin og þessi þjónusta eigi ekki að vera í boði nema þar sem hún borgi sig, sem kallað er, þ.e. að einhver ákveðin rekstrareining sem menn skilgreina verði að borga sig til þess að bjóða hana. Þessi afstaða er einnig að færast inn í fjarskiptaþjónustuna, að skipta eigi landinu upp í svæði eftir því hvar borgar sig að veita þessa þjónustu, hvar borgar sig að byggja hana upp, hvar það borgar sig ekki, og reynist það ekki borga sig samkvæmt einhverju arðsemismati sem lagt er til grundvallar skuli ríkið greiða þá þjónustu sérstaklega í gegnum skattkerfið með einum eða öðrum hætti. Það er svo sem leið en hún víkur frá þeirri grundvallarhugsun sem við Íslendingar höfum byggt upp sem ein þjóð, að grunnalmannaþjónusta skuli rekin sem ein þjónusta, einn vettvangur gagnvart þjóðinni og þó að það sé hagkvæmara að reka það á einum stað en öðrum eigi það að leiða sjálfkrafa til jöfnunar á kostnaðinum.

Ég vil taka þetta fram hér, herra forseti, því að þessi almenna grunnþjónusta, sú hugsjón, á undir högg að sækja en er engu að síður mikilvæg og einn grundvöllur að því að við byggjum upp þetta þjóðfélag, byggjum landið úti um allt og að allir íbúar landsins eigi hér jöfn réttindi.

Það eru miklir möguleikar núna í fjarskiptunum, og ráðherrann hæstv. kom einmitt inn á það. Hann gerði að umtalsefni breiðbandsvæðinguna, þessa miklu möguleika sem liggja í því að leggja ljósleiðara um landið, hina miklu möguleika sem í því felast fyrir öll samskipti og gagnaflutninga. Hæstv. ráðherra sagði að það væri vissulega markmið að breiðband færi sem víðast um land og ég tek alveg undir það með hæstv. ráðherra. Hins vegar hefði ég viljað sjá hér, bæði í umfjöllun í þessu frv. og í þeim skilyrðum sem frv. mundi innifela, markmiðssetningu um breiðbandsvæðingu landsins, tímasetta markmiðssetningu um breiðbandsvæðingu landsins. Hún yrði skilgreind og þetta yrði skilgreint sem alþjónustukvöð, alþjónusta --- þetta er sama og ég mundi leggja þann skilning í að væri almenn grunnþjónusta sem allir ættu að eiga aðild að. Síðan væri þá gefinn einhver lágmarkstími til þess að uppfylla þessa kvöð, veita þessa þjónustu.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum einmitt lagt fram hér á Alþingi till. til þál. sem kveður á um breiðbandsvæðingu landsins. Þar leggjum við áherslu á að mörkuð verði tímasett stefna um uppbyggingu fjarskipta og gagnaflutningsnets landsins á næstu þremur árum þannig að fyrirtæki, stofnanir og heimili hvar sem er á landinu hafi aðgang að bestu fáanlegum fjarskipta- og gagnaflutningsmöguleikum með breiðbandinu eða annarri jafngildri tækni, eins og segir í tillögu okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði.

[12:45]

Við teljum jafnframt að fela eigi Landssímanum þetta verk. Landssíminn er þjónustustofnun í eigu Íslendinga, í eigu þjóðarinnar. (Gripið fram í: Ekki stofnun, Jón.) Þetta er þjónustustofnun. Þó að breytt hafi verið um og sett hf. aftan við Landssímann og hann hlutafélagavæddur voru það bara mistök því að þetta er fyrst og fremst þjónustustofnun og sem betur fer tókst ríkisstjórninni ekki það ætlunarverk sitt að selja Landssímann, sem betur fer, enda var þjóðin afar andvíg því. Hún hefur litið á Landssímann sem hluta af hinum almennu þjónustustoðum byggðar, búsetu og atvinnulífs í landinu sem eigi ekki að ganga kaupum og sölum innan lands og utan, heldur eigi að beita styrk Landssímans til þess að byggja upp og reka öflugt fjarskiptakerfi. Við erum þess vegna andvíg því að ríkið geri sem eigandi svo háar arðsemiskröfur á Landssímann og rekstur hans að þær verði honum til trafala við að byggja upp rekstrar- og þjónustukerfi um landið. Við leggjum til í þessari þáltill. að í þetta verði ráðist á næstu þremur árum. Þetta er eitt brýnasta verkefnið fyrir okkur í fjarskiptamálum.

Sömuleiðis gerði hæstv. ráðherra hér að umtalsefni GSM-farsímaþjónustuna og rakti það sem var alveg hárrétt, og ég tek heils hugar undir með hæstv. ráðherra, að GSM-farsímaþjónustan er orðin eiginlega bara hluti af hinu daglega lífi einstaklinga og fyrirtækja í atvinnurekstri og þjónustu. Þá er líka í hæsta máta eðlilegt að jafnframt því að maður viðurkenni þetta og geri sér grein fyrir því --- þetta er bara hið besta mál --- séum við fljót að tileinka okkur þessa þjónustu. Ísland er dreifbýlt land og við viljum hafa ör og góð fjarskipti og samskipti. Og þá náttúrlega grípum við til bestu fáanlegu tækninnar. GSM-farsímaþjónustan hefur fengið feikna útbreiðslu og notkun og þá er næsta skref að hún verði skilgreind sem þjónusta fyrir alla landsmenn sem allir landsmenn skuli eiga jafnan aðgang að og að við sameiginlega tökum ábyrgð á því að þessi þjónusta verði byggð upp um allt land, verði hluti af hinu almenna fjarskiptakerfi landsins í byggð og á aðalvegum og jafnframt að hún verði viðurkennd og fái réttarstöðu í kerfinu okkar sem hluti af öryggis- og neyðarkerfi í byggð og á aðalþjóðvegum landsins. Hún er það þar sem eru tök á því og fólk fær nú orðið öryggisleysistilfinningu þegar það finnur að það er ekki í GSM-farsímasambandi á svæðum þar sem það teldi annars líklegt eða sjálfsagt að svo væri. Þessi mismunun sem nú er að verða í þessu tilliti er farin að skipta landinu og mismuna því mjög sterkt eftir því hvar þessi þjónusta er í boði og hvar ekki. Þetta snertir búsetuna, atvinnulífið, ferðaþjónustuna o.s.frv.

Ég tel, herra forseti, að þetta tvennt sé það brýnasta fyrir okkur til að takast á við nú, að GSM-farsímakerfið verði byggt upp um allt land í byggðum og á aðalþjóðvegum landsins og sömuleiðis, sem fylgist þá líka að, að breiðbandsvæðing nái til allra landsmanna,

Ég hefði viljað sjá, herra forseti, þessa stefnumörkun og þessa ákvörðun tekna og mun leggja til í hv. samgn. að þetta verði tekið inn í frv. í skilgreiningu á alþjónustukvöðum, sé þess nokkur kostur.

Ég hefði viljað sjá, t.d. í tillögum ríkisstjórnarinnar sem voru birtar fjölmiðlum í gær um að auka fjármagn til samgöngumála, sem var hið besta mál, hluta af þessum áherslum fara í fjarskiptin. Ég tel að svo brýnir séu þessir þættir fyrir samkeppnishæfni búsetu og atvinnulíf úti um hinar dreifðu byggðir. Ég hefði viljað sjá það og ég mun jafnframt gera það að umtalsefni við umfjöllun um fjáraukalagatillögur ríkisstjórnarinnar þegar þær koma fram að þarna væri virkilega vettvangur til að setja fjármagn inn í til þess að styrkja og jafna samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu í landinu.

Herra forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum lagt fram þessar tvær þáltill., annars vegar um breiðbandsvæðingu landsins og hins vegar um aðgang allra landsmanna að GSM-farsímakerfinu. Með leyfi forseta ætla ég að fá að vitna í þessa tillögu okkar sem fjallar að hluta til um það sama mál og hér er verið að ræða í frv. hæstv. ráðherra, þ.e.:

,,... að fela samgönguráðherra að beita sér í krafti eignarhluta ríkisins í Landssíma Íslands fyrir því að fyrirtækið setji sér það markmið og hefjist þegar handa um að tryggja öllum landsmönnum aðgang að GSM-farsímakerfinu. Jafnframt felur Alþingi ráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til breytinga á fjarskiptalögum þess efnis að GSM-farsímakerfið verði skilgreint sem öryggis- og neyðarkerfi í byggð og á aðalþjóðvegum landsins.``

Einmitt nú með þessu frv. sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram gefst tækifæri til þess að fella þetta mál okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um GSM-farsíma inn í þetta frv. hæstv. ráðherra. Það tel ég hið allra merkasta mál.

Annað atriði vil ég líka gera að umtalsefni, herra forseti, í umfjöllun um þetta frv. Þar er kveðið á um að draga þurfi úr flóknu regluverki í kringum fjarskipti. Ég verð að segja fyrir mig að þessi gjaldskrármál fjarskiptanna eru mér fullkominn frumskógur. Hvað kostar ef ég hringi núna úr mínum GSM-síma sem byrjar á 861 í t.d. einhvern GSM-síma sem byrjar á 899? Ég hef ekki hugmynd um hvort sá GSM-farsími er á ábyrgð Landssímans eða e.t.v. Íslandssíma. Ég hef ekki hugmynd um það. En það skiptir máli í hvorn þeirra er hringt hvað símtalið kostar. Ég hef ekki hugmynd um hver munur er á því að hringja úr fastlínusíma í GSM-síma eða úr GSM-síma í fastlínusíma.

Ég hef heyrt um að til sé langur listi af einhverjum afsláttarmöguleikum í símnotkun. En það eru svo flóknir listar að það þarf meiri háttar yfirlegu til þess að átta sig á því hvernig þetta gjaldskrárkerfi er byggt upp. Mér finnst það vera núna forgangskrafa að gjaldskrármál í fjarskiptum verði í fyrsta lagi einfölduð verulega og í öðru lagi verði þau gerð rækilega sýnileg þannig að þegar við hringjum vitum við til hvaða kostnaðar við erum að efna. En eins og núna er upplifir maður þetta eins og maður fari út í búð, kaupi sér t.d. flík, það er ekkert vöruverð á henni en svo fær maður í pósti heim hvað varan kostaði. Neytendasamtökin hafa gert úttekt á þessum frumskógi gjaldskrármála, bæði innan símfyrirtækjanna og á milli þeirra. Ég er hérna með á þrem blöðum bara brot af þessari úttekt.

Ég tel mjög mikilvægt, herra forseti, að þegar við fjöllum nú um þetta fjarskiptamál í samgn. komi ráðuneytið eða Póst- og fjarskiptastofnun, hvaða aðili sem væri hægt að skylda til þess, með inn í þessa umfjöllun rækilega útlistun á þessum frumskógi gjaldskrármála í fjarskiptum þannig að hægt sé að kanna með hvaða hætti megi einfalda þau og gera þau skiljanleg venjulegum símnotanda. Einmitt í gegnum þennan frumskóg er hægt að reka yfirtökur í gjaldskrármálum. Það er kannski markmiðið þó að ég ætli þessum fyrirtækjum það ekki að það sé markmiðið að hafa gjaldskrána svo flókna að enginn leggi það á sig að setja sig inn í hana og þannig sé hægt að ná inn auknum tekjum. Ég ætla þeim það ekki en það er skýlaus krafa í nútímaþjóðfélagi að allar gjaldskrár séu einfaldar og rækilega sýnilegar neytandanum þegar hann stofnar til þeirrar þjónustu og gjaldtöku. Þetta vildi ég draga hér mjög skýrt fram, herra forseti.

Þá verð ég líka að ítreka mikilvægi þess að við stöndum vörð um Landssíma Íslands. Þó að hann hafi fengið hf. er hann nærri því 100% í eigu þjóðarinnar. Hann á að vera það áfram og við eigum að treysta honum og nýta styrk hans til þess að byggja upp öflugt fjarskiptakerfi í landinu.